fbpx
Sunnudagur 20.júlí 2025
Fréttir

Jón Gnarr segir að súrefnið sé að klárast: „Sérstaklega smeykir við kallana á Saga Class“

Máni Snær Þorláksson
Þriðjudaginn 24. september 2019 12:04

Jón Gnarr

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Gnarr, rithöfundur og fyrrverandi borgarstjóri, skrifaði pistil á Facebook í gærkvöldi en pistillinn hefur vakið mikla athygli.

Í pistlinum líkir Jón loftslagsbreytingunum við flugferð en við erum öll farþegar í flugvélinni. Í þessari flugvél er mikið reykt og það veldur mörgum farþegum óþægindum en auk þess eru súrefnisbirgðirnar á þrotum.

„Sérstaklega eru börnin óhress með það. Nokkrir læknar og vísindamenn sem eru um borð fullyrða að tóbaksreykurinn valdi hjartasjúkdómum og krabbameini. Aðrir, sérstaklega pípureykingamenn, draga það í efa. Þeir sitja líka fremst í vélinni, á Saga Class og vilja njóta þess að kveikja sér í Sweet Dublin eftir matinn. Hópur af veðurfræðingum situr aftast. Þau segjast hafa reiknað það út að ef reykingunum verði ekki tafarlaust hætt muni reykurinn eyða súrefnisbirgðum vélarinnar á meðan hún er enn í lausu lofti og hún muni hrapa til jarðar og segja að við eigum einungis súrefni til 2-3 tíma en flugið er miklu lengra. Enginn efast um orð vísindamannanna, nema kannski örfáar hræður sem segja þetta ekki byggt á neinum rökum heldur bara hluti af flughræðslu. En þeir eru fáir og flestir skilja að þetta er ekki alveg í lagi og eitthvað þarf að gera. Margir eru því byrjaðir að ókyrrast og kalla eftir því að reykingar verði hreinlega bannaðar um borð. Sérstaklega eru börnin að verða hávær. Sum eru jafnvel byrjuð að gráta af óþægindum og skelfingu.“

Jón segir flugstjórana vera sá einu sem hafa vald til þess að taka ákvörðunina um að banna alfarið reykingar það sem eftir er af flugferðinni.

„En þeir eru tregir til þess. Farþegarnir hafa jú allir keypt sér reyk-flug. Þeir óttast að það gæti jafnvel orðið uppþot meðal farþeganna ef þeir fengju ekki að reykja einsog þeim var lofað. Þeir eru sérstaklega smeykir við kallana á Saga Class. Þeir óttast að þeir muni jafnvel snúa baki við flugfélaginu og velja önnur flugfélög í framtíðinni ef þeir fengju ekki að reykja að vild með koníakinu sem þeir fá ókeypis eftir matinn. Ekki bætir úr skák að sígarettur og vindlar eru seldir um borð og hefur það verið ein helsta tekjulind flugfélagsins að selja farþegum dýra kúbuvindla. Flugstjórarnir óttast því um stöðu sína og jafnvel að þeim verði sagt upp vinnunni ef þeir tækju svona afdrifaríka ákvörðun, sem varðaði upplifun og ferðaánægju farþeganna. Það er jafnvel svo hart að nokkrir kallarnir á Saga Class eiga stóran hlut í flugfélaginu sem rekur vélina og borgar laun flugstjóranna.“

„Það truflar fáa og alls ekkert kallana á Saga Class“

Jón segir flugstjórana því hafa brugðið á það ráð að biðja flugfreyjurnar um að beina þeim vinsamlegu tilmælum til farþeganna að draga aðeins úr reykingunum og sína samfélagslega ábyrgð í leiðinni.

„Flestir taka því vel en þetta er langt flug og freistandi að kveikja sér í einni og einni rettu, sérstaklega þegar þeir sjá aðra gera það.“

Þá segir Jón flugstjórana ákveða að banna eldspýtur því eldurinn frá þeim brennur meira súrefni en eldurinn sem kemur frá kveikjara.

„Farþegarnir fá þó klukkutíma til að aðlagast því banni. Bannið er heldur ekki skilvirkara en svo að í raun er það einungis bann við því að flugfreyjurnar gefi fólki ókeypis eldspýtnabréf, með merki flugfélagsins, einsog tíðkaðist áður, heldur þurfa farþegar, að klukkutíma liðnum, að borga 50 krónur fyrir bréfið. Það truflar fáa og alls ekkert kallana á Saga Class.“

Hann segir fólkið samt vera óneitanlega byrjað að ókyrrast og þegar fólk byrjar að ókyrrast þá reykir það enn meira.

„Það fær sér líka nokkra drykki til að róa taugarnar. Og við það reykir það ennþá meira. Ósætti og rifrildi er byrjað að breyðast út á meðal fólksins. Sígarettureykingafólkið er ósátt við kallana sem púa vindla og segja mesta reykinn koma frá þeim. Þeir benda á, sér til varnar, að þeir reyki bara stöku vindla, eftir matinn, á meðan sígarettureykingafólkið keðjureyki meira og minna alla leiðina og jafnvel á meðan það borðar. Nokkrir farþegar hafa þó tekið þá ákvörðun að draga stórlega úr reykingum sínum eða jafnvel hætta þeim alveg. En það skiptir litlu máli því vélin er stór og farþegarnir margir og jafnvel hinir reyklausu eru sveipaðir reykjarkófi þótt þeir reyki ekki sjálfir.“

„Flugstjórarnir eru ekkert að fara að banna reykingar um borð“

Því næst segir Jón að nokkur börn á skólaladri hafi tekið sig saman í flugvélinni og ákveðið að setjast á gólfið en þau ætla að gera það þar til eitthvað verði gert í reykingunum. Margir farþeganna dást að því hugrekki sem skólakrakkarnir sýna.

„Flugfreyjurnar standa ráðalausar. Ef þetta væri fullorðið fólk þá myndu þær umsvifalaust rífa viðkomandi á fætur og teipa hann fastann við sætið sitt að gömlum sið en þar sem þetta eru börn gengur það ekki alveg. Það er líka að verða súrefnisskortur í vélinni og óráðlegt að vera að reyna mikið á sig. Svo er skyggnið heldur ekki gott um borð í reykmettaðri vélinni. Þær fara því fram í kokkpitt og funda með flugmönnunum. Eftir nokkra reykistefnu ákveður flugstjórinn sjálfur að ávarpa farþegana. Hann kveikir sér í góðum vindli og tekur upp talstöðina. Ábúðarfullri röddu hvetur hann til þess að hver og einn líti nú í eigin barm og spyrji sjálfan sig hvort hann þurfi virkilega næstu sígarettu og stingur svo uppá því að allir taki höndum saman og ákveði í sameiningu að reykja bara aðra hvora af þeim sígarettum sem þeir ætluðu að reykja. Hann tilkynnir líka að hann muni ganga fram með góðu fordæmi og reykja einungis fyrsta flokks kúbuvindla héðan í frá og hvetur aðra til að fylgja fordæmi sínu. Hann tekur annan smók af vindlinum og tilkynnir svo af festu að ef farþegarnir taki sig ekki á muni áhöfnin hugsanlega banna filterslausar alfarið það sem eftir lifir ferðarinnar. Kurr fer um vélina við þessi orð.“

Jón segir að nú séu börnin á gólfinu vera byrjuð að gráta. Það er ekki einungis vegna þess að þeim svíður í augun heldur eru þau farin að átta sig á því að fullorðna fólkið er ekkert að fara að hætta reykingunum þrátt fyrir að allir viti að súrefnisbirgðirnar séu á þrotum.

„Og þau eru líka byrjuð að fattta að eins mikið og flugstjórarnir og flugfreyjurnar tala um mikilvægi þess að við förum nú öll bráðum að grípa til einhverra aðgerða þá eru þau líklega ekki að fara að grípa til þeirra. Þau munu hækka eldspýturnar um 50 kall í viðbót og um það bil sem flugstjórinn er að missa meðvitund af súrefnisskorti verður sala og dreyfing á filterslausum kannski algjörlega stöðvuð. 

Flugstjórarnir eru ekkert að fara að banna reykingar um borð. Þetta er nefnilega reykflug.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sigurgeir syndir Ermarsund fyrir Píeta samtökin

Sigurgeir syndir Ermarsund fyrir Píeta samtökin
Fréttir
Í gær

Varð vitni að stórfelldu ráni þremenninga í Krónunni: „Ég er búin að búa hérna í sjö ár. Ég borgaði þeim í símanum mínum“

Varð vitni að stórfelldu ráni þremenninga í Krónunni: „Ég er búin að búa hérna í sjö ár. Ég borgaði þeim í símanum mínum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fuglaáhugafólk hneykslað á Sveppa – „Greinilegt að fuglarnir þjást á meðan þeir kumpánar flissa og skemmta sér“

Fuglaáhugafólk hneykslað á Sveppa – „Greinilegt að fuglarnir þjást á meðan þeir kumpánar flissa og skemmta sér“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslenskur raftónlistarmaður losnar ekki undan þýskum plötusamningi – „Passið ykkur áður en þið skrifið undir“

Íslenskur raftónlistarmaður losnar ekki undan þýskum plötusamningi – „Passið ykkur áður en þið skrifið undir“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dagur vill fá stundaskrá fyrir þingveturinn – Treystir Þórunni best til þess

Dagur vill fá stundaskrá fyrir þingveturinn – Treystir Þórunni best til þess
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Maður sagður í haldi lögreglu eftir eldsvoða í Reykjanesbæ – Stórhættulegt ástand skapaðist

Maður sagður í haldi lögreglu eftir eldsvoða í Reykjanesbæ – Stórhættulegt ástand skapaðist