
„Í eitt skiptið sparkaði hann í magann á mér en oftast lamdi hann mig í höfuðið, því áverkar á höfði, á bakvið hárið, þeir sjást ekki. Hann nauðgaði mér líka,“ segir kona sem gengur undir nafninu Kemala, í viðtali við Stundina. Þar er fjallað um konur utan EES svæðisins sem hafa komið hingað til lands og gifst íslenskum karlmönnum sem hafa beitt þær ofbeldi. Konurnar eru í viðkvæmri stöðu þar sem dvalarleyfi þeirra hér á landi er oftast bundið mökum þeirra. Þennan aðstöðumun nýta ofbeldisfullir makar kvennanna til að stjórna þeim.
Þrjár konur frá löndum utan EES svæðisins lýsa samböndum sínum við ofbeldisfulla íslenska eiginmenn. Umfjöllunin er löng og umfangsmikil en við grípum aftur niður í sötu Kemala. Hún er frá Austur-Asíu og kynntist íslenskum manni í gegnum stefnumótasíðu. Skömmu eftir að Kemala kom til Íslands giftist hún manninum. Hún eignaðist barn með honum en ofbeldið hófst eftir að barnið fæddist. Um það segir meðal annars í greininni:
„Hann átti það til að detta mjög harkalega í það með vinum sínum um helgar. Ef ég bað hann um að draga úr því sló hann mig. Oftast beitti hann mig ofbeldi þegar barnið var sofandi, annaðhvort í stofunni eða í svefnherberginu okkar. Ég var oft með marbletti og meiddi mig einu sinni illa á hné, þannig að ég þurfti að vinna með spelku lengi.“
Eiginmaður Kemala var afbrýðisamur og afbrýðisemi hans jókst til muna eftir að hún byrjaði að vinna úti:
Þegar sonur Kemölu var orðinn nógu gamall til að fara í leikskóla fékk hún vinnu, þar sem henni var vel tekið og henni leið vel. Við það jókst afbrýðisemi mannsins hennar til muna. „Þá fór hann að saka mig um að vera að halda framhjá. Samhliða því var hann ofbeldisfyllri, líkamlega og andlega. Í eitt skiptið sparkaði hann í magann á mér en oftast lamdi hann mig í höfuðið, því áverkar á höfði, á bakvið hárið, þeir sjást ekki. Hann nauðgaði mér líka.“
Einu sinni fékk Kemala aðstoð nágranna sem kallaði til lögreglu vegna ofbeldisins. Lögregla kom á vettvang ásamt fulltrúa barnaverndar og Kemala fluttist í Kvennaathvarfið. Hún fékk skilnað tiltölulega fljótt og tókst að losna úr klóm eiginmannsins. Hún hefur fengið mikla hjálp í Kvennaathafinu og hefur henni tekist að byggja upp líf sitt á ný.
Samkvæmt upplýsingum Stundarinnar er hlutfall þolenda og gerenda í heimilisofbeldi á Íslandi hærra meðal erlendra ríkisborgara en innfæddra.