„Það var ógeðslega góð lykt af henni. Það er óhætt að segja að við séum orðnar bestu vinkonur. Mömmu finnst þetta reyndar ekkert merkilegt, held hún sé frekar vonsvikin með hversu spennt ég var yfir þessu,“ segir Unnur Eggertsdóttir leikkona og söngkona en hún uppfyllti langþráðan draum nú á dögunum þegar hún rakst á raunveruleikastjörnuna Kim Kardashian á tónleikum í Los Angeles. Líkt og sjá má meðfylgjandi mynd fór vel á með þeim stöllum.
Unnur deildu „sjálfunni“ af sér og Kim á facebooksíðu sinni á mánudagsmorgun ásamt orðunum: „Ég eignaðist nýja vinkonu í gærkvöldi.“
„Þetta var allt frekar steikt. Ég fékk VIP miða á síðustu stundu á John Legend tónleika hér í LA og Kim var bara rétt hjá mér ásamt Kendall og Kris,“ segir Unnur létt í bragði í samtali við blaðamann DV. Hún bætir við að stjörnunar hafi vitanlega verið umkringdar lífvörðum sem hafi gætt þess að enginn myndi abbast upp á þær.
„Þær entust ekki lengi á tónleikunum enda í vondum skóm svo þær fóru út fljótlega. Ég brosti til Kim þegar hún labbaði framhjá mér og hún brosti til baka svo ég ákvað að við værum þar með orðnar vinkonur, og vinkonur verða að eiga myndir af sér saman. Ég kallaði á eftir henni hvort ég mætti taka mynd með henni og hún svona laumaði mér til hliðar og kinkaði til lífvarðar sins svo hann myndi ekki skjóta mig. Við smelltum mynd, ég sagðist elska hana og hún sagði ‘aww you’re sweet,“ segir Unnur þvínæst.
„Myndin fer beinustu leið upp á vegg, og ég hlakka til að taka fleiri með vinkonu minni næst þegar við djömmum saman!“