Björn Hákon Sveinsson beinir þeim tilmælum til Vegagarðarinnar og lögreglunnar að bregðast við vegna hættu sem steðjar að börnum og öðrum gangandi vegfarendum við Miklubraut. Björn, sem er formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl, birti myndband á Twitter-síðu sinni í morgun.
„Á þessari götu ykkar eru börn í stórhættu á hverjum morgni þegar 2-3 ökumenn keyra yfir grænt gönguljós. Eruð þið til í að þruma eins og einu beygjuljósi í hvora átt inn á Miklubrautina áður en það verður stórslys þarna?,“ sagði Björn við myndbandið og merkti Vegagerðina í færslu sinni.
Björn bætti við að þangað til brugðist verður við með ljósum væri vel séð ef lögreglan myndi sekta ökumenn sem virða ekki græna ljósið hjá gangandi vegfarendum. „Ef ekki sé ég mig knúinn til að fara að eggja bíla fólks sem býr til þessa hættu mörgum sinnum á hverjum morgni!“
Vegagerðin svaraði Birni í færslu sinni og sagði að þessi mál væru stöðugt til skoðunar. „Hér mætti setja upp gul viðvörunarljós til ökumanna, síðan eru undirgöng hinumegin og því mætti líka skoða að einfaldlega leggja af gönguleiðina þarna yfir. En horfa þarf til afkastagetu gatnamótanna hér sem annarsstaðar,“ sagði Vegagerðin.
Björn svaraði því til að það væri bara áhættuaukandi.
„Sonur minn þyrfti þá að fara yfir gönguljós á Lönguhlíð þar sem staðan er alveg jafn slæm. Svo þyrfti hann að halda á hjólinu sínu niður og upp tröppur og fara svo aftur yfir Lönguhlíðina hinum megin. Mér fallast hendur,“ segir hann og bætir við: „Við horfðum einmitt upp á ökumann keyra á barn síðasta vetur þar sem hann beygði til hægri af Miklubraut norður, inn Lönguhlíð.“
Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, blandaði sér einnig í málið og sagði að þetta væri að gerast út um alla borg. „Sé þetta líka á gatnamótum Miklubrautar og Hofsvallagötu,“ segir hann.
Góðan daginn @Vegagerdin
Á þessari götu ykkar eru börn í stórhættu á hverjum morgni þegar 2-3 ökumenn keyra yfir grænt gönguljós. Eruð þið til í að þruma eins og einu beygjuljósi í hvora átt inn á Miklubrautina áður en það verður stórslys þarna? pic.twitter.com/qbMB0R8o1n— Björn Hákon (@Bjoddn) September 5, 2019