

Athafnamaðurinn Sindri Sindrason hefur verið ákærður af Héraðssaksóknara fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og fyrir peningaþvætti. Sindri hefur komið víða við í íslensku viðskiptalífi. Hann er nú forstjóri tæknifyrirtækisins Carbon Recycling International en áður var hann hluthafi og stjórnarmaður í Actavis. Auk þessa hefur hann komist á lista yfir tekjuhæstu stjórnendur fyrirtækja.
Samkvæmt ákæru á hendur Sindra er hann sakaður um að hafa brotið lög með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2011 til og með 2015 með því að láta undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum tekjur að fjárhæð tæplega 122 milljón krónum frá félögunum Larsen Danish Seafood A/S og Larsen Danish Seafood GmbH. Með framangreindu komst Sindri undan greiðslu tekjuskatt og útsvars að fjárhæð tæplega 56 milljónum, að því er segir í ákæru.
Líkt og fyrr segir hefur Sindri komið víða við í íslensku viðskiptalífi. Hann var til að mynda forstjóri Pharmaco í um 22 ár. Auk þess sat hann í stjórn Eimskip. Hann var svo stjórnarmaður í félaginu Larsen Danish Seafood, þar sem meint brot áttu sér stað, á árunum 2003 til 2014.