

Jóhann Ingi Hafþórsson, blaðamaður Morgunblaðsins skrifar hressandi bakvörð í blað dagsins. Þar rifjar hann upp augnablik þar sem hann var dauðadrukkinn á knattspyrnuleik.
Upphafið að pistli Jóhanns má rekja til þess að hann mun missa af landsleikjum Íslands í október á heimavelli. ,,Ég pantaði mér á dögunum flug til Búdapest. Verður flogið út aðra helgina í október. Ég komst að því fljótlega eftir að ég gekk frá kaupunum að ég missi af leikjum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta við Frakkland og Andorra í undankeppni EM á Laugardalsvelli,“ skrifar Jóhann í blað dagsins.
,,Um smá áfall er að ræða, þar sem ég hef ekki látið mig vanta á heimaleik með landsliðinu í mörg ár. Í staðinn skelli ég mér á leik Ungverjalands og Aserbaídsjan í sömu keppni og fæ því smá sárabót.“
Jóhann virðist hafa misst sig í gleðinni á landsleik í Króatíu árið 2013. ,, Mér tókst að steinsofna í stúkunni í Króatíu einhvern tímann um miðjan fyrri hálfleik. Þrátt fyrir ótrúlegan hávaða á vellinum vaknaði ég ekki fyrr en eftir leik og hafði ekki hugmynd um hvernig fór. Vonbrigðin voru mikil þegar ég komst að því.“
Jóhann rifjar upp ferð til Noregs árið 2013 þegar Ísland var að reyna að komast á HM. Hann fékk sér aðeins of mikið í glas.
,,Um mánuði fyrr fór ég til Noregs og varð vitni að 1:1-jafntefli á Ullevaal-vellinum, sem tryggði sætið í umspilinu. Fyrir leik var ég einstaklega stressaður og ákvað að reyna að slá á stressið með eins og einum bjór, sem síðan varð að fleirum. Ég man takmarkað eftir leiknum en sá sjálfan mig í sjónvarpinu daginn eftir grátandi úr gleði í stúkunni. Það var ekki eitt fallegt tár, heldur var ég háskælandi.“
,,Ég hef lofað sjálfum mér að haga mér betur í Ungverjalandi. Ég mun reyna mitt besta við að ná öllum leiknum í Búdapest og jafnvel halda aftur af tárunum í leiðinni.“