Nú hefur annar víðfrægur Íslendingur bæst í hóp þeirra sem tjá sig um varaforsetann og er það enginn annar en Jón Valur Jensson, guðfræðingur og bloggari. Hann er hæst ánægður með komu Pence til landsins og skrifar til hans á bloggsíðunni „Kristin Stjórnmálasamtök“.
Hann deilir bloggfærslunni í Facebook-hópinn Stjórnmálaspjallið en þar segist hann vona að ávarpið sitt sé sem ólíkast því sem mótmælendur segja.
„Ég vona að hljómurinn í þessu ávarpi mínu til varaforseta Bandaríkjanna sé sem ólíkastur þeim óhljóðum sem nú eru líkleg til að berast frá Austurvelli.“
Jón Valur byrjar ávarpið á að tala um þá aldagömlu tengingu sem er á milli Íslands og Bandaríkjanna.
„Þjóðir okkar hafa verið afar nánar síðan árið 1941, Íslendingar hafa notið ókeypis hernaðarverndar síðan þá auk hinnar mikilvægu Marshall-aðstoðar eftir seinni heimsstyrjöldina. Löngu fyrir það, á 19. öld, fluttust margir Íslendingar til Bandaríkjanna og lifa afkomendur þeirra þar í dag.
Síðan talar hann um Leif Eiríksson en svo virðist vera sem Jón Valur telji að Kristófer Kólumbus hafi fengið upplýsingarnar um Ameríku úr íslendingasögunum.
„Síðan á 10. öld, þá voru Íslendingar eins og Bjarni Herjólfsson og Leifur Eiríksson mættir til Bandaríkjanna. Það var löngu fyrir daga Kristófers Kólumbusar, sem þá hafði ferðast til norður-Evrópu og orðið var við íslendingasögur um Íslendinga og Grænlendinga sem fluttust til Ameríku.“
Hann segir íslensku þjóðina vera umhyggjusama þegar kemur að ófæddum börnum og segir þau hafa undanfarið orðið fyrir banvænum árásum frá öfga-vinstrifólki.
„Við erum ennþá, allavega mörg okkar, sem betur fer kristileg þjóð sem deilir kristinni trú með þér, yðar hágöfgi. Við deilum með þér umhyggju um hina ófæddu borgara, sem hafa undanfarið orðið fyrir fjandsamlegum og banvænum árásum frá öfga-vinstrifólki og veraldarhyggjumönnum síðan hinn blóðþyrsti Bolshevik Lenin kynnti fyrstu fóstureyðingarlögin til sögunnar.“
Að lokum segir Jón Valur að Pence eigi ekki að vera sár yfir mótmælum frá Íslendingum, þeir tali ekki fyrir alla þjóðina.
„Megi heimsókn þín vera sú ánægjulegasta, og herra varaforseti, þú skalt alls ekki vera sár yfir einhverjum mótmælum frá jaðarsettum og ný-róttækum hópum. Þeir tala ekki fyrir alla þjóðina!“