Nokkur fjöldi fólks er kominn saman í góða veðrinu á Austurvelli, en eins og kunnugt er var þriðji orkupakkinn samþykktur í atkvæðagreiðslu á Alþingi í morgun.
Þetta var niðurstaða sem búist var við, en á endanum greiddu 46 þingmenn með þriðja orkupakkanum en þrettán þingmenn greiddu atkvæði gegn honum.
Að minnsta kosti 100 manna hópur hafði komið sér fyrir á Austurvelli í hádeginu og mátti meðal annars sjá mótmælaspjöld. Þá voru nokkrir mættir með íslenska fánann. Þá var spiluð tónlist en í meðfylgjandi myndbandi má heyra lagið Freyja sem Magnús Þór Sigmundsson og Fjallabræður flytja.
Í texta lagsins segir meðal annars:
„Kæra Freyja mín
á ég skilið að eiga þig að
eftir að hafa þér
afneitað?
Ég seldi þig
fiskinn í sjónum og fjöreggin mín
grundirnar, fjöllin og vötnin þín
fyrir hvað?“