Fjögur högl fundust í ketti sem týndur hafði verið í tvo daga í Dalabyggð. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV. Eigendurnir héldu í fyrstu að kötturinn hefði slasast á fæti en við skoðun hjá dýralækni fundust fjögur högl eftir haglabyssu, eitt í fæti, annað í eyra og tvö í rófunni.
Kötturinn er enn haltur og með verki í rófunni en er allur að koma til, að sögn eigandans, Guðlaugar Hrannar. Skoðun á höglunum bendir til að þau komi úr haglabyssu sem notuð er til að skjóta lítil meindýr af þriggja til fimm metra færi.
Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Vesturlandi.