Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú, á í vandræðum með nágranna sína í London. Miklar vatnsskemmdir hafa orðið á íbúð hennar sem virðist mega rekja til leka frá íbúðinni fyrir ofan. Nýlega fékk Dorrit eftirfarandi orðsendingu frá tryggingafélagi sínu:
Kæra Dorrit
Í framhaldi af samtali okkar í gær skrifa ég þér til að staðfesta að því miður, í ljósi tíðra vatnsskemmda sem þú hefur þurft að þola síðustu árin, treystum við okkur ekki til að halda áfram að sjá um tryggingarnar þínar.
Dorrit birtir orðsendinguna á Instagram og segir að skemmdirnar megi flestar rekja til íbúðarinnar fyrir ofan. Þrátt fyrir margar tilraunir hafi henni ekki tekist að fá eigendurna til að líta á skemmdirnar. Dorrit endar færsluna með hæðnisfullu myllumerki: #Goodneighbours
Íbúðin fyrir ofan Dorrit er í eigu Loro Piana fjölskyldunnar sem rekur heimsfrægt ítalskt fatahönnunarfyrirtæki. Ekki er staðfest að um sömu fjölskyldu sé að ræða.
DV hafði samband við Dorrit vegna málsins og sagðist hún því miður ekki geta tjáð sig frekar um það.