Nína Þórsdóttir fór með köttinn sinn til dýralæknis eftir að hann hafði verið haltur en auk þess var hann líka hættur að borða og drekka. Hringbraut greinir frá þessu.
„Það sem kom í ljós sem ástæða fyrir því hvað honum leið illa, var að það hafði einhver skotið hann með haglabyssu.“
Þetta skrifaði Nína Þórsdóttir í færslu á Facebook síðu sína. Nína fór til sérfræðings með höglin og niðurstaðan var sú að þessi tegundd af höglum væri aðallega notuð af meindýraeyðum.
Með færslunni birtir Nína röntgenmyndir sem teknar voru af kettinum og á myndinni má sjá höglin greinilega. Dýralæknirinn náði ekki öllum höglunum úr kettinum.
„Eftir að hafa fengið sérfræðinga til að skoða höglin sem dýralæknirinn náði úr honum í vikunni, bendir allt til þess að þau hafi komið úr haglabyssu sem sé helst notuð af meindýraeyðum á mýs og rottur. Höglin eru minni en þau sem eru notuð á gæsaveiðar. Það var hægt að ná höglunum úr fætinum hans og eyra, en þau sem lentu í skottinu hans sitja ennþá föst, því þau eru alveg upp í einu beininu. Í dag er hann enn þjáður, aftur hættur að borða og tvísýnt með framhaldið hjá honum.“
Atvikið átti sér stað fyrr í mánuðinum í Sælingsdal í Dalabyggð. Samkvæmt Nínu kom kötturinn ekki heim í tvo daga en þá var farið að leita að honum. Kötturinn fannst undir runna, illa þjáður vegna skotsáranna.
„Þetta gerist þar sem hann er með móður minni í Laugum í Sælingsdal í Dalabyggð, við Hótel Eddu, einhvern tíman milli laugardags og mánudags 17. 18. eða 19. ágúst, líklegast um nótt. Hann kom ekki heim í um 2 daga svo mamma fór út að leita að honum og fann hann undir runna, með meðvitund en þjáðan. Ef þú veist um einhvern sem var á þessu svæði og með svona byssu, eða veist hver gerði þetta vill ég vinsamlegast biðja þig um að senda mér skilaboð hér á facebook með frekari upplýsingum.“