Íslenska kvennalandsliðið vann flottan sigur á Ungverjalandi í kvöld en liðin áttust við á Laugardalsvelli.
Ísland vann að lokum 4-1 sigur þar sem Elín Metta Jensen skoraði tvö mörk fyrir íslenska liðið. Um var að ræða fyrsta leikinn í undankeppni EM 2021.
Hér má sjá það góða og slæma úr leiknum.
Plús:
Það er hrikalega gott að byrja undankeppnina á sigri þó að spilamennskan hafi oft verið betri þá vinna góð lið á slæma deginum sínum.
Svava Rós og Fanndís Friðriks áttu frábæra innkomu í leik kvöldsins og komu með meira líf í sóknarleikinn og ógnuðu með hraða sínum og krafti.
Jón Þór, landsliðsþjálfari, er að reyna að yngja upp liðið og það gekk vel. Ungu stelpurnar komust vel frá sínu verkefni og ættu að vera betri þegar líða fer á keppnina.
Mínus:
Frammistaðan í fyrri hálfleik í heildina var ekki góð og varnarleikurinn í marki Ungverja var barnalegur og slakur.
Sóknarleikurinn var ágætur í seinni hálfleik en liðið þarf að klára færi sín betur.
Stelpurnar eiga skilið að fleiri láti sjá sig í stúkunni en raun bar vitni á Laugardalsvelli í kvöld en mætingin var slök.