fbpx
Sunnudagur 27.júlí 2025
Fréttir

Emil Jón svipti sig lífi í kjölfar eineltis – Fleygði sér fyrir lest nokkrum dögum fyrir 17 ára afmælisdaginn

Auður Ösp
Miðvikudaginn 4. september 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Emil Jón Björnsson svipti sig lífi sex dögum fyrir 17. afmælisdaginn sinn. Hann varð fyrir miklu einelti í grunnskóla og skildi það eftir sig varanleg ör.

Lilja Jónsdóttir, móðir Emils, féllst á að segja sögu Emils ásamt eldri systur hans, Dagnýju Hrund Björnsdóttur. Mæðgurnar vonast til að vekja fólk til umhugsunar um þær skelfilegu afleiðingar sem einelti getur haft.

„Fæddist áttræður“

Emil Jón fæddist 4. maí 1997 og ólst upp í Tidaholm í Vestur- Gautlandi í Svíþjóð. Hann var næstyngstur í systkinahópnum, sem auk hans telur tvær eldri systur og eina yngri.

„Hann var ofboðslega ljúfur og góður strákur,“ segir Dagný.

„Ég segi alltaf að hann hafi fæðst áttræður. Hann var gömul sál. Hann náði alltaf góðu sambandi við fullorðna, en hann náði ekki alveg að skilja jafnaldra sína. Sjö ára var hann farinn að hlusta á Stephen King og Hringadróttinssögu á ensku og hann sökkti sér ofan í áhugamál sín, sem voru enska, tónlist og að teikna,“ segir Lilja.

Mæðgurnar segja Emil lengst af hafa verið höfðinu hærri en jafnaldrar hans, stór og þrekinn. Á skólamyndum náðu hinir strákarnir honum rétt svo upp á bringu. Þannig skar hann sig úr hópnum og varð auðvelt skotmark.

„Hann var ofboðslega næmur fyrir hljóðum og hávaða og fór að gráta þegar lætin voru orðin of mikil fyrir hann,“ segir Lilja en Emil var greindur með athyglisbrest 12 ára gamall. Þá var talið að hann væri með vott af Asperger-heilkenni.

Emil ásamt systrum sínum

Stór og þrekinn, en lítill og viðkvæmur

Þær segja eineltið hafa hafist strax í leikskóla; Emil var útskúfað úr hópnum þar sem hann var öðruvísi. Í grunnskóla hélt eineltið áfram og voru gerendurnir  aðallega þrír bekkjarfélagar. Hinir skólafélagarnir þorðu ekki að grípa inn í.

„Við vorum í sveitaskóla og þurftum að taka rútu í skólann á hverjum degi. Eineltið var langtmest þar,“ segir Dagný og Lilja tekur undir:

„Eineltið var langmest í rútunni. Í skólanum hélt hann sig nálægt kennurunum, eins og í frímínútum og þegar farið var í gönguferðir og þess háttar. Við ólum hann upp í að hann mætti ekki beita sér líkamlega og meiða þá sem væru minni en hann. Hann ætti að vera góður við alla hina af því að hann væri stærri en þeir. Þess vegna brást hann við stríðninni með því að hörfa í burtu og fara að gráta. Hans leið til að fá útrás var að taka þetta út á sjálfum sér: hann fór inn á klósett í skólanum og kýldi sjálfan sig aftur og aftur.“

Dagný bætir við: „Þó svo að hann hafi verið svona stór og þrekinn þá var hann ofboðslega lítill og viðkvæmur inni í sér. Hann gerði ekkert á móti ef þeir gerðu honum eitthvað.“

Enginn kom í afmælið

Eitt atvik stendur upp úr í huga mæðgnanna.

„Þegar hann varð sjö ára héldum við upp á afmælið hans. Við leigðum félagsheimili fyrir veisluna og Emil fór með boðskort í skólann, voðalega spenntur, og bauð öllum bekknum. Planið var að allir myndu koma með rútunni í félagsheimilið eftir skóla. Daginn sem veislan átti að vera haldin kom hann í félagsheimilið með tárin í augunum. Þá höfðu tveir strákar í bekknum hans gengið á milli barna í rútunni og hótað þeim öllu illu ef þau mættu í afmælið. Af öllum hópnum voru tvær bekkjarsystur hans sem þorðu að mæta. Þetta var ofboðslega sárt. Við höfðum samband við skólann en fengum lítil viðbrögð,“ segir Lilja.

Dagný segist hafa reynt að grípa inn í og hjálpa litla bróður sínum þegar hún gat. En síðan kom að því að hún fór á unglingastig í skólanum, en sá hluti skólans var í bænum.

„Það var hræðilegt að horfa upp á þetta. Þegar ég fór síðan upp á unglingastig þá gat ég ekki lengur verið til staðar og passað hann.“

Þegar Emil var  9 ára var hann tekinn úr bekknum og settur í sérbekk þar sem voru færri nemendur og aðeins einn kennari sem sá alltaf um hópinn. Lilja segir það hafa gefið góða raun. Emil fór síðan upp á unglingastig í 8. bekk og fór þá í skóla í bænum. „Hann átti einn besta vin sem fór með honum þangað. Þarna fór allt að ganga betur,“ segir Lilja.

Mæðgin á góðri stundu

Virtist blómstra

Emil hóf síðan nám í framhaldsskóla haustið 2013 og allt virtist vera á uppleið.

„Hann eignaðist þarna nokkra góða vini. Við gátum farið að slappa aðeins af,“ heldur Lilja áfram.

„Þarna var eins og hann væri byrjaður að blómstra. Hann var með rosalega mikinn áhuga á tölvum, enda er pabbi forritari, og ég bjóst við að Emil myndi fara út á þá braut. Maður einhvern veginn hélt að þetta væri allt saman að baki. En það var víst ekki þannig. Þetta var greinilega búið að setja sitt mark á hann,“ segir Dagný.

„Honum leið afskaplega illa inni í sér, þótt hann sýndi það ekki,“ bætir Lilja við. „Þegar ég hugsa til baka þá var ákveðinn léttir yfir honum þarna undir lokin, hann var glaður daginn áður en hann dó. Seinna fundum við í  tölvunni hans kveðjubréf sem hann hafði skrifað til vina sinna, en það var dagsett 22. apríl, sex dögum áður en hann dó.

Þetta var algjörlega „out of the blue.“ Hann var búin að vera að tala við pabba um að græja bílprófið og þess háttar. Það voru engin merki um að hann væri í þessum hugleiðingum.“

Fá aldrei að vita öll svörin

Þann 28. apríl 2014 svipti Emil Jón sig lífi.

„Þessi dagur byrjaði bara bara eins og hver annar, ég faðmaði hann og bauð honum góðan dag og svo skutlaði pabbi hans honum í skólann. Hann var ekkert öðruvísi en venjulega,“ segir Lilja.

Seinna meir kom í ljós að Emil hafði skilið töskuna sína eftir í skáp í skólanum og farið þaðan á lestarstöðina í Skövde.

Samkvæmt bankayfirliti hans þennan morguninn eyddi hann dágóðum tíma á lestarstöðinni, rúmlega fjórum klukkustundum.

„Þetta gerðist svo um hádegið,“ segir Lilja. „Hann stökk í veg fyrir lestina.

Á leiðinni heim úr vinnunni náði ég í yngri systur hans í frístund. Þegar við nálguðumst húsið sá ég lögreglubíl á hlaðinu. Þá hafði lögreglan hringt í pabba Emils og beðið hann að koma heim. Ég mundi eftir að hafa kveikt á útvarpinu í hádeginu og heyrt í fréttum að einhver hefði stokkið fyrir lestina í Skövde.

Þarna hugsaði ég: „Getur það hafa verið Emil?““ rifjar Lilja upp.

Aðeins þeir sem hafa misst ástvin á þennan hátt geta ímyndað sér sársaukann og sorgina sem því fylgir. Mæðgurnar eru ekki í neinum vafa um að sjálfsvíg Emils sé bein afleiðing af eineltinu sem hann varð fyrir í grunnskóla. Það er engin önnur skýring.

„Að sjálfsögðu er maður með alls konar getgátur um hitt og þetta. Við vitum allavega að eineltið lék langstærsta hlutverkið í þessu. En við fáum auðvitað aldrei að vita öll svörin,“ segir Lilja.

Emil var jarðaður á Íslandi en heima í Svíþjóð var haldin minningarathöfn. „Þangað komu krakkar sem voru með honum á unglingastigi og bekkurinn hans úr framhaldskólanum og kennararnir sömuleiðis. Hins vegar kom enginn af þeim sem voru með honum í grunnskóla, hvorki nemendur né kennarar. Við fengum engin kort eða kveðjur eða neitt,“ segir Lilja og Dagný rifjar upp:  „Á þessum tíma var ég ófrísk að elsta syni mínum. Ég hitti ættingja sem ég hafði ekki hitt lengi og fólk vissi hreinlega ekki hvort það ætti að segja til hamingju eða ég samhryggist.“

Ábyrgðin hjá foreldrunum

„Ég ákvað strax að ég ætlaði ekki að missa mig í biturleika og reiði. Það er svo mannskemmandi. Ég er ofboðslega þakklát fyrir að hafa átt þennan dreng í 17 ár,“ segir Lilja.

„Ég var lengi vel alveg ofboðslega reið út í skólann og aðstæðurnar og alla sem komu að þessu. Ég er búin að vera hjá sálfræðingi og ég er búin að sleppa tökunum af þessari reiði í dag. En auðvitað er þessi sjálfsásökun til staðar: „Hvað hefði ég getað gert öðruvísi?““ segir Dagný.

„Umræðan er sem betur fer orðin opnari núna. Ég sé það í skólanum þar sem ég er að vinna. En ég vildi óska að foreldrar myndu kenna börnum sínum það nógu snemma að maður á að koma fram við aðra eins og maður vill að aðrir komi fram við sig. Kenna þeim að bera virðingu fyrir öðrum og sýna aðgát í nærveru sálar. Það er eins og það hafi hreinlega gleymst hjá mörgum. Börn fæðast ekki illa innrætt og það er á ábyrgð foreldranna að kenna þeim falleg samskipti,“ segir Lilja.

„Foreldrar, kunningjar og skólastarfsmenn verða að axla ábyrgð. Það þýðir ekki að sofna á verðinum,“ segir Dagný jafnframt.

Algjört áhugaleysi hjá skólanum

„Síðast í síðustu viku dreymdi mig að ég vaknaði og þetta hafði allt verið martröð. Ég keyri á hverjum degi fram hjá útafkeyrslunni sem ég tók til að keyra hann í skólann.  Marga daga í hverri viku heyri ég í hraðlestinni sem keyrir í gegnum Skövde og „stoppar ekki“ í Skövde,“ segir Björn Ingvar Erlendsson, faðir Emils.  Hann tekur fram að á sínum tíma hafi verið erfitt að fá skólayfirvöld til að taka vandamálið alvarlega.

„Bréf eftir bréf, og fundir og ekkert gerðist og eina „lausnin“ sem raunar ekki var lausn heldur það eina sem skólanum datt í hug, að setja Emil í bekk með krökkum sem höfðu hegðunar vandamál og vandamál með að læra, sem ekki var hans vandamál,“ segir Björn og bætir við að  andleg og sálræn vandamál séu mismunandi.

„Hann átti erfitt með að skilja hvernig lífið og tilveran virkar og erfitt með að passa inn og örugglega með töluvert af ADHD, angist, sjálfsgagnrýni, mismunandi þunglyndum einkennum og öðru. En það kemur mismunandi út. Það er oft, sem betur fer, létt að sjá það þegar það kemur út í allskonar útbrotum, reiði, dramatík og öðru sem sést vel og gerir lífið ömurlegt fyrir alla sem umgangast þann sem líður illa.

En stundum kemur það út þannig að þeim sem líður illa einangrar sig, setur upp skel sem meira eða minna lætur allt líta vel út ef maður ekki er vakandi. Svona smá hlutir sem maður ekki tekur vel eftir eins og, yfirdrifnum fókus á eitthvað eitt,sérstaklega eitt í einu, óskýr svör ef spurt er um skóla, vini, hvað verið er að gera og óskýr og loðin svör um „daglega hluti“. Óvilja að taka þátt í því sem restin af fjölskyldunni er að gera. „Nei,ég fer bara inn í herbergi og geri,“ svör. Eða: „Nei ég held ég komi ekki með ég bara..“ Eða „Nei ætli ég skoði ekki bara … Og þar fram eftir götunum. Þetta er létt að misskilja og sumir sem líður illa eru meistarar í þessu, sér í lagi stráka.“

Þann 28. apríl síðastliðinn skrifaði Dagný færslu á Facebook, í tilefni af afmælisdegi Emils. Hann hefði orðið 22 ára nú í ár, hefði hann lifað.

„Einelti, hverjar eru afleiðingarnar? Djúp sár sem rista svo djúpt í sál fólks. En dýpri ör sem kvelja og hafa áhrif á líf þeirra til æviloka og hjá alltof mörgum verður ævin of stutt.
Áhrifin af einelti eru hræðileg, ef þú færð að heyra og finna í nógu langan tíma að þú sért ekki verðugur, að þú sért verri en aðrir, að þú sért ekki nógu góður. Hversu langan tíma tekur það að fara að trúa því? Hvenær fara hlýju raddirnar um ást, kærleika og vinskap að dofna og í huga manns, hvenær byrjar hatrið á sjálfum manni að verða það mikið að maður heyrir þær ekki lengur.“

 Í lok færslunnar ritar Dagný:

„Fólk – foreldrar, kunningjar, kennarar skólaliðar, allir sem koma að lífi barna AXLIÐ ÁBYRGÐ. Því afleiðingarnar geta verið svo hræðilegar að það er ekki hægt að lýsa þeim.

Kennið börnum ykkar kærleika, ást og virðingu. 

Kennið börnum ykkar vægi þess að allir séu jafnmikils virði.

Passið ykkur hvernig þið talið um „Jón og Siggu útí bæ“  við matarborðið.

Hegðun ykkar skiptir svo ótrúlega miklu máli. 

 Látum minningu um yndislegan dreng lýsa líf okkar og beina okkur á rétta braut.

Lifum í ást, lifum í trú um að heimurinn sé á réttri leið, lifum í friði og lifum fyrir hvert annað. Lifum lífinu!

 Elskum hvert annað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Varaþingmaður segir fjölmiðla og stjórnvöld hafa farið fram með offorsi – Ekki hættulegra að búa í Grindavík en víða annars staðar

Varaþingmaður segir fjölmiðla og stjórnvöld hafa farið fram með offorsi – Ekki hættulegra að búa í Grindavík en víða annars staðar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bandaríska vegabréfið aldrei jafn máttlaust og nú – Flest evrópsk vegabréf sterkari

Bandaríska vegabréfið aldrei jafn máttlaust og nú – Flest evrópsk vegabréf sterkari