Það er búið að sparka liði Bury Town úr ensku D-deildinni vegna fjárhagsvandræða.
Þetta var staðfest í gær en Bury gat ekki sannað það að félagið væri með fjármagnið til að endast leiktíðina á Englandi.
Nú eru leikmenn liðsins í vandræðum og þá sérstaklega miðjumaðurinn Stephen Dawson sem er 33 ára gamall.
Dawson er miður sín eftir þessar fréttir en hann þarf nú að selja húsið sitt sem hann hefur búið í heillengi.
,,Ég er búinn að ræða við bankann í morgun því þetta voru endalokin,“ sagði Dawson.
,,Það er ekkert flókið við þetta, þetta er búið fyrir mig. Ég hef spilað allan minn feril og sett allt í þetta hús fyrir börnin mín.“
,,Ég á enga rándýra bíla eða rándýr föt, ég var aldrei í stöðu til að þéna þúsundir punda sem þessir góðu leikmenn gera.“
,,Ég gerði þetta fyrir mig og mína fjölskyldu. Ég elskaði að spila en ég er niðurbrotinn. Hvernig segi ég við litlu stelpurnar mínar að þær þurfi að yfirgefa húsið þar sem þær ólust upp?“
,,Ég er í vandræðum með að sætta mig við allt sem er í gangi ef ég á að vera hreinskilinn.“