Jódís Skúladóttir var stödd ásamt eiginkonu sinni og syni þeirra á Barnaspítala Hringsins seinni partinn í gær. Drengurinn var í eftirfylgd. Jódís ákvað að kaupa næringu í sjálfsala sem er á vegum Ölgerðarinnar og pantaði þrjár kókómjólk og eina samloku. Samtals átti þetta að vera 1.110 krónur.
„Þegar við svo settumst á biðstofuna með veitingarnar spurði kona mig hvort ég hefði verslað þetta í sjálfsalanum. Hún hafði þá lent í því að of mikið var rukkað fyrir vörur sem hún hafði keypt. Ég fór því á netbankann og viti menn og konur! Ég var rukkuð um 1.000kr fyrir hverja vöru! 4.000kr fyrir 3 kókómjólk og 1 samloku!“
Jódís hitti síðan aðra konu sem hafði verið rukkuð um 1000 krónur fyrir tyggjópakka. DV hefur heimildir fyrir því að fleiri hafi lent í svipuðum aðstæðum.
DV ræddi við starfsmann Ölgerðarinnar sem er með sjálfsalana á sínum snærum en Borgun sér um greiðslukerfið. Viðar, starfsmaður Ölgerðarinnar segir að bagalegt að þessi mistök hafi átt sér stað. Vandamál sambærileg þessu hafi áður komið upp og segir Viðar að Ölgerðinni hafi verið tjáð að búið væri að laga kerfið. Viðar tekur fram að Ölgerðin fái aldrei þennan pening sem greiddur sé aukalega fyrir vöru. Hann sé bakfærður til korteiganda síðasta lagi sex dögum síðar.
„Búnaðurinn er að rukka heimild plús vöruverð og það eru margir sjálfsalar á landinu sem hafa verið að gera þetta. Við fáum eins og ég sagði aldrei þessa peninga og þeir skila sér aftur til neytenda frá Borgun. Okkur þykir þetta mjög miður og skapað leiðindi fyrir okkur en ef haft er samband við okkur aðstoðum við okkar viðskiptavini að fá upphæðina strax til baka inn á sinn bankareikning,“ segir Viðar og segir að unnið sé að því að koma í veg fyrir að þetta gerist í sjálfsölum fyrirtækisins en eins og áður segir er Borgun sem sér um greiðslukerfi fyrir Ölgerðina.
Á meðan Jódís var á Barnaspítalanum var önnur kona sem keypti sex vörur og á bankayfirliti sagði að 6000 krónur væru farnar af reikningnum.
„Þetta á bara ekki að eiga sér stað! Hér er fólk með fárveik börn sem hefur annað að gera en stemma af bókhaldið hjá Ölgerðinni,“ sagði Jódís. „Kona sem lenti í þessu líka hafði samband og kvartaði en henni var sagt að senda tölvupóst og þá fengi hún endurgreitt.“ Þá sagði Jódís að fleiri hefðu haft samband við hana og greint henni frá því að hafa lent í svipuðum aðstæðum og því ljóst að þetta hefði verið í einhvern tíma. Jódís bætir við að hún vilji vara aðra foreldra við.
Ölgerðin segir að Borgun sé að vinna í málinu og biðst afsökunar á óþægindum sem þetta kann að valda.