Flestir ökumennirnir voru stöðvaðir á Suðurlandsvegi vegna hraðaksturs en sá sem ók hraðast mældist á 143 kílómetra hraða á klukkustund.
Þá voru nokkrir staðnir að því að tala í símann undir stýri án þess að notast við handfrjálsan búnað. Auk þess voru tveir ökumenn teknir fyrir þær sakir að aka um á nagladekkjum.
Það sem kom lögreglunni þó mest á óvart við eftirlitið var hversu margir ökumenn voru kærulausir þegar kom að framlengdum hliðarspeglum, sem á að nota þegar verið er að draga breiða eftirvagna. Allmargir voru stöðvaðir af þeirri ástæðu og fengu tiltal fyrir. Hinir sömu voru iðulega með þessa nauðsynlegu spegla í bílnum en höfðu ekki hirt um að smella þeim á til að framlengja hliðarspeglana.
Þetta vakti nokkra furðu hjá lögreglumönnunum sem voru á vettvangi en ökumönnunum var gert að bæta úr þessu á staðnum.