Háskólinn í Reykjavík (HR) var sýknaður af kröfum Kristins Sigurjónssonar, fyrrverandi lektors í verkfræði við skólann, í héraðsdómi Reykjavíkur. Kristinn höfðaði mál gegn HR og krafðist 57 milljóna króna í skaðabætur vegna brottrekstrar hans.
Kristni var sagt upp vegna ummæla hans um konur í lokuðum Facebook-hópi. DV greindi frá ummælunum og daginn eftir var hann boðaður á fund mannauðsstjóra og sagt upp.
Ummæli Kristins voru meðal annars þessi:
„Það á að aðgreina vinnustaði karla og kvenna. Vandinn er bara að konur reyna alltaf að troða sér þar sem karlmenn vinna, og um leið og þær eru komnar inn, þá byrja þær að eyðileggja hann, því allir kalmennirnir eiga þá að fara að tala, hugsa og hegða sér eins og kerlingar, allt annað er áreiti og ef sagður en neðanbeltisbrandari, svo ég nefni ekki klámbrandari, þá er það kynferðisofbeldi.“
Einnig sagði hann:
„Með viðhorfin eins og þau eru í dag, þá vil ég síður vinna með konum eða hafa þær nærri mér.“
Mbl.is greinir frá því að Kristinn muni áfrýja dómnum til Landsréttar. Lögmaður hans, Jón Steinar Gunnlaugsson, segir: „Það er ljóst að þetta verður aldrei endanleg niðurstaða í málinu. Það verður aldrei unað við þetta.“