„Í síðustu viku voru foreldrar mínir full tilhlökkunar að flytja inn í nýju íbúðina sína. Í dag eru þau brotin og húsnæðislaus,“ svona hefst aðsend grein Hrefnu Lindar Ásgeirsdóttur, hugbúnaðarsérfræðings, sem birtist á Vísi í gær.
Foreldrar Hrefnu festu sér kaup á íbúð í Árskógum sem Félag eldri borgara byggði fyrir félagsmenn sína. Greint hefur verið frá því undanfarna daga að kostnaður vegna byggingar íbúðanna hafi reynst mun meiri en áætlanir gerðu upphaflega ráð fyrir. Foreldrar Hrefnu eru með þinglýstan kaupsamning, en fá þó ekki íbúð sína afhenta nema samþykkja 6 milljón króna hækkun á kaupverði.
Daginn eftir að foreldrar Hrefnu áttu að taka við íbúðinni samkvæmt kaupsamningi voru þau boðuð á fund og þeim tilkynnt að vegna þessa auka kostnaðar þá þyrftu þau að samþykkja rúmlega 6 milljón króna hækkun á kaupverðinu til að fá lyklana afhenda og ef þau samþykktu ekki hækkunina þá þyrftu þau að falla frá kaupunum.
Upphaflega áttu foreldrar Hrefnu að fá afhent í júní. En afhendingunni var seinkað.
„Eftir ítrekaðar tilraunir til að fá svör um afhendingu fengu þau loks boð á fund, degi eftir að þau áttu að fá íbúðina afhenta í síðasta lagi samkvæmt kaupsamningi. Þegar fasteignasalinn var spurður hvort að lyklarnir yrðu afhenti sagði hún að svo yrði með ákveðnum skilyrðum án þess þó að vilja tilgreina hver þau skilyrði væru.“
Hrefna segir ljóst að þarna hafi fasteignasalinn vitað vel hverjar aðstæður voru. En ekki varaði hann þó foreldra hennar við og mættu þau grunlaus á fundinn með engan lögfróðan sér til aðstoðar.
Á fundinum var þeim sagt að kostnaður hefði farið mikið fram úr áætlunum, eða um 400 milljónum krónum. Þetta hefði gerst vegna mistaka við útreikning á fjármagnskostnaði og vísitölutengingu. Því þyrftu kaupendur fasteignanna að taka á sig þennan umfram kostnað.
Á fundinum var viðurkennt að kaupendur hefði lagalega réttinn sín megin, en engu að síður fengju foreldrar Hrefnu ekki afhent án aukagreiðslu.
„Það hafa engin gögn eða útreikningar verið lagðir fram til að varpa ljósi á hvernig þessi 400 milljón króna aukakostnaður er til kominn og hvort að sú upphæð dugi til að bjarga félaginu frá gjaldþroti. Hvað gerist ef sumir kaupenda samþykkja hækkun kaupverðsins en aðrir ekki? Mun félagið samt sem áður fara í þrot?“
Foreldrum Hrefnu var greint frá því að fasteignasala og Landsbankinn gætu aðstoðað félagsmenn við fjármögnun, en engar nánari upplýsingar um með hvaða hætti slíkt yrði gert. Jafnframt var þeim sagt að Félag eldri borgara muni hefja viðræður við aðra hagsmunaaðila í verkefninu og freista þess að lækka kostnaðinn, en sá ábati myndi skila sér tli kaupenda. Hins vegar fengu þau engar upplýsingar um hvaða leiðir yrði farið í þeim efnum eða hvenær slíkur ábati gæti skilað sér.
„Foreldrar mínir voru að kaupa sér griðastað til að eyða elliárum sínum. Í stað þess að vera að koma sér fyrir í nýju íbúðinni sinni sofa þau á dýnu í herbergi barnabarna sinna og búslóðin þeirra í geymslu. Foreldrar mínir eru heiðarlegt fólk, hafa alla tíð staðið sína plikt í lífinu og vilja engum illt. Er til of mikið ætlast að aðrir sem koma að þessu máli komi fram af heiðarleika og standi við sína samninga? Það vill enginn standa í málaferlum eða leiðindum á sínum efri árum.“
Gífurleg óánægja er meðal kaupenda í Árskógum vegna þessa máls og samkvæmt heimildum mbl.is er nú íhugað að höfða hópmálsókn á hendur Félagi eldri borgar. Í samtali við mbl.is um helgina sagði Sigurður Helgi Guðjónsson, framkvæmdastjóri Húseigendafélagsins, að kaupverð samkvæmt kaupsamningi sé bindandi og sé það því seljanda að bera kostnaðarauka.