Síðdegis í dag fékk DV ábendingu frá lesanda þess efnis að sjósundmaður kynni að hafa drukknað í Neskaupstað í dag. Var hann við sjósund nálægt bryggjunni við veitingastaðinn Beituskúrinn í Neskaupstað. Að sögn lesanda náðist að blása lífi í manninn en hann óttaðist um afdrif hans.
Lögreglan á Austurlandi svaraði fyrirspurn um málið í kvöld svohljóðandi:
„Maðurinn var hætt kominn og var fluttur með sjúkraflugi til frekari aðhlynningar á Landsspítalann. Það voru tveir aðilar sem stundu sér til sunds í sjónum og ætlaðu að synda frá bryggjunni við veitingastaðinn Beituskúrinn í Neskaupstað og annar þeirra náði landi en hinn ekki.“
Í millitíðinni birti RÚV frétt um málið þar sem segir meðal annars:
„Karlmaður var fluttur á Landspítalann með sjúkraflugi eftir að honum var komið til bjargar fyrir utan veitingastaðinn Beituskúrinn í Neskaupstað. Veitingastaðurinn stendur við sjávarsíðuna og stakk maðurinn sér til sunds ásamt félaga sínum og ætlaði að synda að annarri bryggju. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er manninum haldið sofandi.
Þórhallur Árnason, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni í Neskaupstað, segir í samtali við fréttastofu að þarna hefði getað farið mjög illa.
Þórhallur segir að maðurinn hafi örmagnast á leið sinni yfir að bryggjunni, fólk hafi séð til hans og stokkið til. „Þarna var einhver sem átti lítinn bát sem fór út og dró hann upp í fjöru.“
Þórhallur segir að læknar og sjúkralið hafi verið komið eftir aðeins nokkrar mínútur og það hafi skipt sköpum. „Þetta hefði getað farið mjög illa og stóð mjög tæpt.“ Málið er í rannsókn.“