Sigurjón Þórsson sem varð fyrir því óláni að velta olíubíl á Öxnadalsheiðinni fyrir skömmu segist hafa dottað eitt augnablik undir stýri með þeim afleiðingum að bíllinn valt. Þetta kemur fram í viðtali Morgunblaðsins við Sigurjón. DV greindi frá slysinu í nokkrum fréttum í kringum 25. júlí og birti stutt viðtal við móður Sigurjóns, Jónu Kristínu Sigurðardóttir. Þá lá Sigurjón á gjörgæsludeildinni á Sjúkrahúsinu á Akureyri mikið slasaður, en þó var komið á hreint að meiðsli hans voru ekki lífshættuleg.
Í viðtalinu við Morgunblaðið segist Sigurjón hafa verið undir miklu vinnuálagi dagana í kringum slysið. „Þegar ég fer yfir þetta hef ég eflaust verið þreyttur, en hundsað það, ég hafði unnið mikið dagana á undan, en mér fannst ég alveg hress þegar ég mætti til vinnu um morguninn,“ segir hann.
Olía lak úr bílnum á slysasvettvangi og samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins er talið að um 8 þúsund lítrar hafi lekið út. Tókst hins vegar vel að hefta lekann og lágmarka skaðann.
Um meiðsli Sigurjóns segir í greininni:
„Sigurjón hlaut margvíslega áverka í slysinu. Sex rifbein brotnuðu aftan til í baki, loftbrjóst myndaðist á vinstra lunga og vökvasöfnun. Þá hruflaðist hann umtalsvert og er mikið marinn, einkum á vinstri hlið líkamans. Þá er styrkur vinstri handar skertur og í vikunni þurfti að flytja hann á Landspítala með sjúkraflugi sökum þess að æðar í milta höfðu myndað slagæðagúlp. Hann segir ekki ólíklegt að hann muni dveljast á Sjúkrahúsinu á Akureyri út mánuðinn eða fram í þann næsta.“