51 árs gamall maður, Páll Andrés Lárusson, hefur höfðað dómsmál gegn manninum sem hann telur vera föður sinn. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að manninum beri að láta af hendi lífsýni svo unnt sé að sannreyna faðernið. Þetta kemur fram í Mannlífi þar sem rætt er við Pál Andrés.
Páll Andrés komst að því fyrir áratug að maðurinn sem skráður var faðir hans, Lárus, er ekki líffræðilegur faðir hans. Var það auðsótt mál að fá Lárus þennan til að veita lífsýni til DNA-rannsóknar. Móðir Páls Andrésar átti náinn kynni við tvo menn í mánuðinum sem hann var getinn. Því telur Páll Andrés fullvíst að hinn maðurinn sé faðir hans. Sá hefur hins vegar neitað að láta af hendi lífsýni og neitað allri samvinnu í málinu. Um þetta segir Páll Andrés:
„Ef hann telur að hann sé ekki faðir minn þá væri langauðveldast að fara í DNA-próf til að sanna það.“
Hefur Páll Andrés reynt að hafa samband við meintan föður sinn en án árangurs og vill maðurinn ekkert við hann tala. Hefur hann áfrýjað þeirri niðurstöðu Héraðsdóms að hann beri að láta af hendi lífsýni.