Bílvelta varð á veginum milli Reykholtsdals og Hálsasveitar, skammt frá Hraunfossum, um kvöldmatarleytið í kvöld. Fólksbíll af gerðinni Subaro Legacy fór út af veginum og valt fimm veltur en vegurinn liggur í nokkurri hæð. Óhappið varð í beygju.
DV hefur nánar heimildir af slysinu vegna tengsla.
Þrjár konur á aldrinum 24-25 ára voru í bílnum og eru taldar hafa sloppið ótrúlega vel frá slysinu, en bíllinn er mikið skemmdur. Mikil umferð var á þessum vegarkafla er slysið varð og stöðvaðist um tíma. Vegfarendur hlúðu að konunum þar til sjúkrabíll kom á vettvang.
Sjúkrabíll flutti konurnar á Slysadeild Landspítala í Fossvogi. Tvær kvennanna reyndust nánast ómeiddar en sú þriðja fékk slæmt handleggsbrot og var lögð inn. Ekki er talið að annað ami að henni en hún er til nánari skoðunar.