Skáldið og spaugfuglinn Jón Gnarr er einkum þekktur fyrir að slá á létta strengi. Öllu alvarlegra er yfir nýrri færslu hans á Facebook þar sem hann gagnrýnir karllægt orðafar íslenskra laga, þá einkum kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Hann telur tímabært að endurskoða lögin með tilliti til þess að konur séu stærsti hluti þolenda kynferðisbrota. Það sé því óeðlilegt að lögin tali sífellt um „hann“
Jón bendir einkum á orðalag 194. gr. almennra hegningarlaga sem fjallar um nauðgun. Greinin er orðuð svona: Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Greininni hefur nýlega verið breytt til betri vegar og skilgreinir nú nauðgun sem skort á samþykki, en áður var gert ráð fyrir að nauðgun ætti sér stað þegar þolandi væri neyddur með ofbeldi, hótunum eða nauðgun til samræðis. Hins vegar er enn notast við orðið „maður“ og persónufornafnið „hann“.
„Mér finnst þetta gott dæmi um hinn snúna kyn-vanda íslenskunnar. Við erum öll menn. Stundum erum við menn og konur og það er æðimisjafnt eftir aðstæðum. Ég myndi ekki ávarpa hóp af konum og mönnum og segja: -Hér er samankominn hópur af vöskum mönnum! Ein eða fleiri konur í hópnum gætu móðgast við það og tekið því illa,“ skrifar Jón og bendir á að orðið maður geti átt við um mannkyn allt, en orðið kona geti það aftur á móti ekki.
„En við erum aldrei öll konur. Orðið „maður“ hefur því meira vægi og vald í tungunni heldur en kona. „Kona“ er undir-maður. og þá er ég að meina hugmyndakerfi tungumálsins.“
Jón segist vel skilja að konum geti fundist á rétt sinn hallað við þetta. „Konur eru það fólk sem verður oftast fyrir kynferðislegu ofbeldi og oftast er gerandinn karlmaður. samt tala lögin um „mann“ sem verður fyrir ofbeldi án samþykkis „hans.“.“
Þessu orðalagi þykir Jóni rétt að breyta, slíkt geti varla verið mikil fyrirhöfn. „Væri mikið mál að fara í alvöru að endurskoða lög með tilliti til þessa? Væri ekki réttara að segja td:
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við manneskju án samþykkis hennar gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum.
Annars óska ég landsmönnum ánægjulegrar og ofbeldislausrar helgi!“