Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, finnst furðu sæta að Klaustursmenn haldi því fram að meðför Alþingis á Klaustursmálinu hafi gagngert átt að koma pólitísku höggi á Miðflokkinn. Þrátt fyrir að siðanefnd sé umdeild þá megi ekki gefast upp á henni því siðareglur og siðanefnd veiti þingmönnum nauðsynlegt aðhald.
Þetta kemur fram í færslu hennar á Facebook í gærkvöldi.
„Ef dónar og dusilmenni drekka sig fulla og tala með ruddalegum, klámfengnum og niðrandi hætti um samstarfskonur sínar en einnig fatlaða og samkynhneigða einstaklinga, eru viðbrögðin við því þá til að koma pólitísku höggi á einhvern sem tók þátt í leiknum? Eru sterk viðbrögð ekki eðlileg við slíku virðingarleysi og dónaskap?“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokks og einn Klaustursmanna, hefur haldið því fram að hann hafi verið skotmark í pólitísku útspili andstæðinga hans.
„Sigmundur Davíð tók þátt í „gleðskapnum“ á Klausturbar en telur að siðareglur og túlkun siðanefndar á þeim, snúist um að koma pólitísku höggi á hann sjálfan. Meint skotmark segir hann og skotið geigaði! Ja sveiattan!,“ segir Oddný.
Oddný segir að Samfylkingin sé hlynnt siðareglum þingmanna og hlynnt starfsemi siðanefndar.
„Við viljum hins vegar ekki að kjörnir fulltrúar forsætisnefndar snúi niðurstöðum siðanefndar á hvolf. Þess vegna er rétt af forsætisnefnd að staðfesta niðurstöður siðanefndar jafnvel þó þær kunni að vera umdeildar.“
Hins vegar telur Oddný að Alþingi þurfi að taka ferlið til skoðunar, siðareglurnar sjálfar, siðanefnd og aðkomu forsætisnefndar. En Oddný telur óþarfi að forsætisnefnd hafi aðkomu að siðamálum. Betra væri að fá aðstoð Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu sem hafi reynslu af því að leiðbeina ríkjum um siðareglur.
„Sumir þingmenn eru alltaf kurteisir og koma ávallt fram við alla af virðingu og gæta einnig að virðingu Alþingis. Aðrir gera það ekki.
Við megum ekki gefast upp þó að frumraunir kunni að vera umdeildar, því siðareglur og niðurstöður síðarnefnda setja viðmið og veita þingmönnum nauðsynlegt aðhald.“
Færslu hennar má lesa í heild sinni hér fyrir neðan