fbpx
Föstudagur 08.ágúst 2025
Fréttir

Meirihluti útivinnandi mæðra hefur upplifað kulnun í starfi

Auður Ösp
Mánudaginn 5. ágúst 2019 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rúmlega ein af hverjum sjö útivinnandi mæðrum hefur upplifað kulnun í starfi. Mæður sem eru í 75–100 prósent starfi utan heimilis segjast sjaldnar komast yfir allt sem þarf að gera á heimilinu eftir vinnu. Álag á útivinnandi mæðrum er mikið en óljóst er hvort það er tilkomið vegna heimilis eða vinnu. Starfshlutfall virðist hafa mikið að segja um ánægju mæðra og hvernig gengur að komast yfir aðra hluti tengda heimili og barnauppeldi eftir vinnu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum lokaverkefnis Stefaníu Rutar Hansdóttur og Rósu Drafnar Pálsdóttur til BA-gráðu í sálfræði við við Háskólann á Akureyri. Markmið verkefnisins var að skoða hvort mæður í samfélaginu í dag upplifi starfsánægju í vinnu sinni samhliða heimilishaldi og barnauppeldi.

Helmingur upplifir gott jafnvægi

Í tengslum við rannsóknina var könnun lögð fyrir 372 mæður á aldrinum 20–60 ára en allar eru þær með börn undir 18 ára á heimilinu og 86 prósent af þeim eru í sambúð. Þá eru langflestar þeirra, eða 8 af hverjum 10 í 75–100 prósent vinnu utan heimilis.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að almennt eru mæður ánægðar með hlutskipti sín í atvinnu. Þannig sögðu sjö af hverjum tíu úr hópnum að þær væru ánægðar í starfi. Engu að síður var hátt hlutfall mæðranna, eða 67 prósent, sem sögðust hafa fundið fyrir uppgjöf í starfi síðastliðið ár. Flestar þeirra voru með börn á aldrinum 6 til 18 ára á heimilinu.

Í niðurstöðunum kemur einnig fram að mæðrum finnist  almennt séð ekki gerður munur á konum sem ekki eiga börn og mæðrum í starfi.  Rúmlega sjö af hverjum tíu úr hópnum sögðust frekar oft eða alltaf fá sömu tækifæri á vinnustað og þær sem ekki eiga börn. Um 15 prósent af mæðrunum voru hins vegar ósammála þeirri fullyrðingu.

Rúmlega helmingur af mæðrunum, eða 52 prósent, sagðist upplifa gott jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Þá kemur fram að jákvætt viðhorf frá samstarfsfólki, skilningur frá yfirmanni og skilningur á fjarveru vegna veikinda barna eru þættir sem geta haft mikil áhrif á líðan mæðra í vinnu.

Komast sjaldan yfir allt

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að meirihluta mæðranna fannst þær fremur oft eða alltaf mæta skilningi í vinnu þegar þær voru frá störfum vegna veikinda barna.

Um 78 prósent sögðust fremur oft eða alltaf mæta jákvæðu viðhorfi frá samstarfsmönnum eftir veikindi barna. Skilningur frá yfirmanni þegar sinna þarf fjölskyldu og einkamálum sýndi að í 82 prósent tilfella upplifðu mæður skilning og sást þar munur á starfsánægju en starfshlutfall og aldur barna hafði ekki áhrif.

Fram kemur í niðurstöðunum að jákvæð upplifun mæðra á samspili vinnu og heimilishalds og barnauppeldis skiptir miklu máli. Mælingar sýndu að 33 prósent sögðust fremur oft eða alltaf komast yfir allt það sem þarf að gera vegna barna og heimilis eftir vinnu. Hins vegar sögðust 36 prósent mæðranna fremur sjaldan eða aldrei komast yfir allt það sem þarf að gera. Mæður í 75–100 prósent starfi komust sjaldnar yfir það sem þurfti að gera varðandi heimili eftir vinnu en þær sem voru í 75 prósent starfi eða minna.

Heimilshaldið situr á hakanum

Í niðurstöðum segir enn fremur að eins og staðan er í samfélaginu þá séu mæður og foreldrar almennt uppteknir við amstur hversdagsins.

„Viðhorf sem mæður koma með sér heim eftir langan vinnudag hljóta að hafa áhrif á börnin og heimilishaldið. Það ábyrgðarfulla hlutverk sem móðir stendur fyrir og öll ábyrgðin sem leggst á aukalega fyrir utan vinnu hlýtur að hafa mikil áhrif. Hvað svo sem það er sem leiðir til aukins vinnuálags á mæður, er umhugsunarvert hversu margar þeirra komast einungis stundum yfir það sem þarf að gera á heimilinu eftir vinnu. Heimilishald situr á hakanum á meðan fullri einbeitingu er haldið á vinnunni. Verkefnalistar heimilisins samtvinnast með vinnuálaginu sem leiðir til þess að mæður upplifa uppgjöf í starfi vegna skorts á tíma til að sinna heimili og því sem fylgir.“

Þá segir að mæður virðist eiga að geta verið í fullri vinnu, eldað mat á hverjum degi, haft heimilið lýtalaust, vera vel útlítandi og þess á milli að ná að mæta á alla foreldrafundi, skólaviðburði, sinna barnauppeldi, hlusta á lestur barna sinna á meðan þær fara í búðina og gera vikuinnkaupin.

„Þetta hljómar allt voðalega óraunhæft en þetta virðast vera kröfurnar til mæðra. Þetta er mikilvægt atriði til að skoða í því samfélagi sem við búum við í dag.“

Þá segir að út frá þessum niðurstöðum sé hægt að álykta að álagsjafnvægi milli heimilis og vinnu stangist á.

„Þótt 86 prósent svarenda séu í sambúð eða giftar er athyglisvert að sjá hversu stórt hlutfall segist ekki komast yfir það sem þarf að gera eftir vinnu í tengslum við heimili og barnauppeldi. Er verkaskiptingin innan heimilis svo ójöfn að álag vegna heimilis og barnauppeldis leggist einungis á mæður? Niðurstöður sýna að álag er á mæðrum á vinnumarkaði en spurningin er hvað það er sem veldur. Í framhaldi af þessari rannsókn væri hægt að skoða hvaðan álagið kemur. Er það tilkomið frá skyldum heimilis og barnauppeldis og skólaskyldum eða er það komið frá vinnunni?“

Eins og hamstur í hjóli

Andrea Hjálmsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, og Marta Einarsdóttir, sérfræðingur á Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri, kynntu fyrr á árinu niðurstöður rannsóknar sem sneri að streitu í daglegu lífi fjölskyldufólks á Íslandi. Í tengslum við rannsóknina voru tekin rýnihópaviðtöl á Akureyri og á höfuðborgarsvæðinu, við hópa karla og kvenna sem voru í parasamböndum og áttu börn.

Í útdrætti kemur fram að ljóst sé að góður árangur hafi náðst hér á landi þegar kemur að kynjajafnrétti á ákveðnum sviðum samfélagsins, en á sama tíma koma tíðari fréttir af aukinni streitu í daglegu lífi og aukinni tíðni kulnunar í starfi og streitutengdra sjúkdóma. Rannsóknir hér á landi benda til þess að þrátt fyrir mikla atvinnuþátttöku sé meira vinnuálag vegna barnauppeldis og heimilisstarfa á herðum kvenna en karla og óskir um styttri vinnuviku sem fram hafa komið í rannsóknum benda til þess að það sé ekki án vandkvæða að samræma fjölskyldu og atvinnu.

„Mér finnst ég stundum eins og hamstur í hjóli,“ sagði einn viðmælendanna.

Þá töluðu margir viðmælendur um sífellt samviskubit sem þeir glíma við, togstreitu um forgangsröðun og þá slæmu tilfinningu sem fylgir því að ná ekki að sinna fjölskyldunni sem skyldi vegna álags í vinnunni, eða öfugt.

Það reyndist hins vegar mismunandi hvernig karlar og konur skilgreindu álag í daglegu lífi. Þannig var það algengara á meðal kvennanna að tala um álag tengt heimilisstörfum og barnauppeldi, á meðan karlarnir tengdu álag og streitu við vinnuna.

Þá kemur enn fremur fram í niðurstöðunum að stytting vinnuvikunnar sé lykilatriði í því að minnka álag og auka lífsgæði fjölskyldufólks hér á landi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Flosi ómyrkur í máli um árin í ferðaþjónustunni – „Mér þótti yfirmenn mínir oft hegða sér undarlega“

Flosi ómyrkur í máli um árin í ferðaþjónustunni – „Mér þótti yfirmenn mínir oft hegða sér undarlega“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Segir samráðsleysi við íbúa Ölfuss algjört – „Þögn er sama og samþykki“

Segir samráðsleysi við íbúa Ölfuss algjört – „Þögn er sama og samþykki“