
Erla Hlynsdóttir hefur sagt starfi sínu lausu sem framkvæmdastjóri Pírata en starfinu hefur hún gegnt í rúm tvö ár. Þar áður var Erla meðal annars mjög þekktur blaðamaður. Erla segir frá þessum tímamótum í Facebook-færslu. Þar koma ástæður starfslokanna ekki fram og er óljóst hvort þau tengjast ólgunni sem hefur verið innan flokksins undanfarið og hefur komið rækilega fram í fjölmiðlum. Færsla Erlu er svohljóðandi:
Ég hef sagt lausu starfi mínu sem framkvæmdastjóri Pírata. Ég hef unnið með flokknum í gegn um tvennar kosningar, fyrst óvæntar alþingiskosningar og síðan sveitarstjórnarkosningar. Tími minn hjá Pírötum hefur verið afskaplega dýrmætur og ég er þakklát fyrir að hafa verið treyst fyrir þeim mikilvægu verkefnum sem ég hef fengið að sinna. Ég ætla hins vegar ekki að halda því fram að þetta hafi alltaf verið auðvelt. Síður en svo. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa hvernig það er að vinna fyrir stjórnmálahreyfingu. En það er alltaf fjör.
Á þeim tíma sem ég starfaði fyrir hreyfinguna hef ég kynnst mörgu einstöku fólki sem ég veit að ég hefði hvergi kynnst annars staðar en hjá Pírötum. Ég hef líka eignast sanna og trausta vini. Ég hef lært afar mikið um lífið, samskipti, stjórnmál, já og ferla. Við skulum aldrei gleyma ferlum! Þvílíkur skóli sem þetta hefur verið, þvílíkt sem ég hef getað lagt inn í reynslubankann.
Á þessum tímapunkti tel ég best að segja þetta gott og leita að nýjum ævintýrum. Ég veit að Píratar verða ekki í vanda að leita uppi sín eigin ævintýr.
Ekki náðist í Erlu við vinnslu fréttarinnar.