Ole Anton Bieltved ber hreindýraveiðimenn þungum sökum í grein sem hann birti í Morgunblaðinu og á vef Hringbrautar í dag. Þar staðhæfir hann að af þeim hreindýrum sem felld voru í fyrra hafi yfir 30 verið með gömul skotsár. Það þýði að þessi dýr hafi lifað af fyrri skotárásir veiðimanna, kannski bækluð og limlest en hafi tórt til þess eins að vera skotin aftur.
Ole skrifar síðan:
„En hvað með öll þau dýr sem voru skotin án þess að lifa af; komust undan veiðimanni til þess eins að deyja drottni sínum í sárum og kvölum? Blýkúlur valda oft ígerð í sárum og svo drepi og blóðeitrun; langvinnum og heiftarlegum dauðdaga.
Kannski ráfa særð dýr um með brotinn fót, splundraða mjöðm eða sundurskotið trýni – ófær um að ná sér í næringu – dögum eða vikum saman. Þar til dauðinn loks líknar.“
Ole fer mörgum orðum um meintan hrottaskap hreindýraveiðimanna og bendir á að umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, hafi heimilað veiði á 1.451 hreindýrum í ár sem sé meira en nokkru sinni fyrr.
Ole hefur áður farið hörðum orðum um framferði hreindýraveiðimanna, þ.e. í grein sem DV fjallaði um skömmu fyrir áramót. Þar segir hann virðulega menn á borð við lækna hafa sérstaka ánægju af því að drepa dýr. Þar segir:
„Um daginn var afmælisgrein í blaði um lækni á Austfjörðum, sem varð sextugur þann dag. Lagði læknirinn blaðinu til mynd, sem fylgdi greininni, þar sem hann krýpur yfir dauðu hreindýri, sem hann hafði skotið. Heldur hann drápsvopninu hátt í vinstri hendi, en lyftir höfði dauðs dýrsins með þeirri hægri, sperrir sig svo og brosir glaðhlakkalega framan í myndavélina, eins og hann væri hetja, sem hefði verið að vinna stórvirki.“
Ole Anton segir að hér hafi verið um að ræða fullorðinn og væntanlega þroskaðann mann, sextugan lækni. Ole er þeirrar skoðunar að þessi tiltekni læknir ætti frekar að hlúa að lífi, leitast við að vernda það og lækna, ekki bara mannlífi, heldur öllu lífi. „Einkum lífi þess, sem ekkert hefur sér til saka unnið; er ekki aðeins saklaust og varnarlaust, heldur á sér líka engrar undankomu auðið, en hefur tilfinningar; finnur til, fyllist kvíða og ótta, lætur sér annt um afkvæmi sitt og fjölskyldu, eins og við.“
Greinina eftir Ole sem birtist í dag má lesa í heild hér.