„Það er eitthvað að í samfélagi sem þarf að treysta á frjáls félagasamtök til að gefa fólki að borða. Staða íslenska hagkerfisins er sögð góð en engu að síður er stór hópur sem verður að treysta á frjáls félagasamtök til að fá grunnþröfum sínum fullnægt eins og að fá að borða. Hver er eiginlega ábyrgð stjórnvalda gagnvart þeim sem minnst mega sín í samfélaginu?“
Þetta segir Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokk fólksins, á Facebook en hún vitnar í frétt Fréttablaðsins um að lokað sé bæði hjá Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp langt fram í ágúst. Áslaug Guðný Jónsdóttir, stjórnandi hópsins Matarhjálp Neyðarkall á Facebook, segir stöðuna hræðilega.
„Það nær engri átt að hafa lokað í tvo mánuði. Við erum nú þegar búin að hjálpa um 40 fjölskyldum um mat og nauðsynjar en ég er enn þá með átta fjölskyldur á skrá,“ er haft eftir Áslaugu. Að hennar sögn vanti flestum mat en dæmi séu um fjölskyldur sem ekki geti leyst út lyf úr apótekum og eigi ekki föt á börnin.
Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar, segir í samtali við Fréttablaðið að þetta sé í fyrsta skipti sem lokað sé um sumarið. „Við verðum að loka í átta vikur í júlí og ágúst. Við erum að borga hátt í 1.200 þúsund krónur í húsaleigu bæði hér í Reykjavík og á Reykjanesi. Nú er staðan bara þannig að við sáum okkur ekki fært að vera með opið í júlí og ágúst, bara því miður. Auðvitað finnst okkur þetta mjög leiðinlegt og mjög sárt,“ segir Ásgerður.