Þrátt fyrir 15 prósenta fækkun ferðamanna hingað til lands í júní miðað við sama mánuð í fyrra jókst kortavelta ferðamanna hér á landi í síðasta mánuði miðað við júní 2018. Alls nam aukningin um 20 prósentum í verslun. Þá jókst bensínsala til ferðamanna um 10 prósent. Dálítill samdráttur varð í gistingu og bílaleigu. Þetta kemur fram á vef Hringbrautar þar sem rýnt er í tölfræði um fjölda ferðamanna og tekjur af þeim.
Þegar rýnt er í tölur um fjölda ferðamanna kemur í ljós að mesta fækkunin á sér stað á meðal ferðamanna sem millilenda hér á landi. Er fækkunin þar um 38 prósent. Fækkunin stafar að mestu leyti af falli WOW air og kemur það engum á óvart.
Í frétt Hringbrautar segir enn fremur:
„Lítils háttar samdráttur var í gistiþjónustu og bílaleigu. Svo virðist sem að þeir ferðamenn sem koma til landsins séu tilbúnir að eyða meira en áður, ásamt því að gengi krónurnar getur haft möguleg áhrif á kaupgetu ferðamanna hér á landi.“