Á fimmtudagskvöld gerðist sá skelfilegi atburður í Hafnarfirði að fimm 14 ára drengir réðust á 11 ára dreng og ógnuðu honum meðal annars með hnífi. Móðir drengsins, sem vill ekki láta nafn síns getið sonar síns vegna, hefur sent tilkynningu til barnaverndarnefndar með ítarlegri atvikalýsingu, sem hún hefur látið DV té, nafnhreinsaða. Lögregla og barnaverndarnefnd hafa þegar haft afskipti af málinu og fannst hnífurinn sem notaður var í aðförinni á heimili þess sem hafði hann.
„Ég held að það sé rétt að koma þessu á framfæri og fá umræðu og vitundarvakningu foreldra, enda er sá sem mest hafði sig í frammi þekktur fyrir ofbeldisverk sem aldrei hafa verið tilkynnt,“ segir konan í samtali við DV.
Það var ekki eins og sonur hennar hafi gert eitthvað ógætilegt því atvikið átti sér stað á skilgreindu leikjasvæði fyrir hjólreiðar, á Víðistaðatúni, í grennd við skóla. Hann var semsagt bara úti að leika sér á hjólinu sínu. Eldri drengirnir tóku hann af hjólinu með valdi og hentu honum í tjörn sem er við Víðistaðavatn. Hann féll á grjót og meiddist nokkuð á hægri handlegg. Raftæki hans, sími og heyrnartól, skemmdust við árásina en þó ekki mikið. Hins vegar eru skórnir hans ónýtir eftir mýrarleðjuna. Drengirnir létu niðrandi ummæli rigna yfir hann og einn þeirra, sá sem mest hafði sig í frammi, dró upp hnífinn og sagði að hann myndi kenna á honum ef hann kæmi sér ekki í burtu.
Drengurinn flýði af vettvangi og hringdi í lögreglu. Lögreglan gat fundið út hver aðalgerandinn var og heimilifang hans. Þar fannst hnífurinn og barnaverndarnefnd var kvödd að heimili drengsins.
Í tilkynningu móðurinnar til barnaverndarnefndar styðst hún meðal annars við 1. mgr. 16. gr. laga um barnaverndarnefnd nr. 80/2202 þar sem kveðið er á um viðbrögð við stórkostlegri vanrækslu á börnum og hvetur hún til að barnaverndarnefnd kynni sér heimilisaðstæður drengjanna sem í hlut áttu.
„Þetta er ógnarástand,“ segir móðirin við DV en einn drengjanna er alræmdur fyrir ofbeldisverk gegn skólafélögum í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði. Fæst þeirra tilvika hafa verið tilkynnt. Móðirin segir aðstöðu foreldra barna sem verða fyrir ofbeldi frá hendi ólögráða einstaklinga vera mjög erfiða. Vegna aldurs gerendanna eru þetta ekki lögreglumál heldur heyra undir barnaverndarnefnd. „Það þýðir til dæmis að ég get ekki fengið upplýsingar um gang málsins, því barnaverndarmál eru auðvitað trúnaðarmál. Og eðli svona mála er þannig að ég hef engin tök á að kæra,“ segir móðirin við DV, sem hefur valið þá leið að senda ítarlega greinargerð um málið til barnverndarnefndar og freista þessa að fylgja því eftir að málið verði tekið fyrir þar. Barnaverndarnefnd fundar vikulega og krefst móðirin þess að málið verði tekið fyrir á fundi nefndarinnar og gripið til viðeigandi aðgerða.
Í greinargerð sinni bendir móðirin á að öðrum börnum stafi mikil ógn af umræddum drengjum, sérstaklega af einum þeirra sem búi við mikla vanrækslu á heimili sínu. Hún lætur þess getið við DV að enginn af foreldum eða forráðamönnum drengjanna fimm hafi haft samband við hana eftir árásina á son hennar.