Olga Steinunn Weywadt Stefánsdóttir er látin eftir baráttu við krabbamein. Vefur Mannlífs greinir frá þessu. Olga Steinunn var í forsíðuviðtali við Vikuna árið 2017 þar sem hún sýndi óhrædd ör eftir brjóstnám. Á vef Mannlífs er þetta rifjað upp:
„Í stað þess að fara í uppbyggingu á brjóstinu brá hún á það ráð að láta tattúvera yfir örið. „Ég skammast mín ekkert fyrir þetta og þessi reynsla sem ég hef er orðin svo stór hluti af mér og þeirri persónu sem ég er í dag. Ég veit að það er mikið mál fyrir margar konur í sömu stöðu að fara í sund. Mér finnst það allt í lagi og ef einhver krakki stendur og horfir eða spyr hvað hafi gerst, svara ég bara: „Brjóstið mitt var veikt og þess vegna þurfti að taka það.“ Fyrir flest börn er það nóg og þau segja: „Já, er það. Mamma réttu mér sjampóið.““
DV greindi einnig frá sögu Olgu Steinunnar haustið 2018, sem hún sagði í tengslum við átakið Bleika slaufan. Eftir greininguna árið 2013 fór Olga Steinunn í lyfjameðferð, brjóstnám eins og fyrr segir, og geislameðferð. Hún greindist aftur með krabbamein árið 2015 og voru þá komin meinvörp í lifur, hrygg og mjöðm. Krabbameinið var ólæknandi og var því haldið lengi niðri með hormónameðferð og inndælingu lyfja á þriggja mánaða fresti.
Olga Steinunn taldi mikilvægt að velta dauðanum fyrir sér og taka hann í sátt. Um þetta sagði hún:
„Sérstaklega þegar hann hangir svona fyrir ofan mig og andar ofan í hálsmálið á mér og fjölskyldunni. Ég sætti mig auðvitað ekki við að deyja og hræðist það á vissan hátt, en ég vil eiga góð ár framundan. Mér finnst líka mikilvægt að ræða um dauðann við lífsförunautinn og fara yfir helstu óskir manns.“