Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að kona, sem tekin var með 7.000 Oxycontin-töflur í farangri sínum, sæti farbanni til 26. júlí næstkomandi.
Konan var stöðvuð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þann 19. apríl síðastliðinn, en við leit í farangri hennar fundust töflurnar. Hafði þeim verið komið fyrir undir fóðri í töskunni.
„Aðspurð hafi varnaraðili sagt „hann“ eiga töskuna. Varnaraðili hafi viðurkennt að hafa vitneskju um einhvern varning í töskunni en hún hvorki sagst vita hvað þar væri um að ræða né í hvaða magni,“ segir í úrskurði héraðsdómi sem féll 28. júní síðastliðinn.
Að sögn lögreglustjóra stendur rannsókn málsins enn yfir og er beðið skýrslu tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu varðandi rannsókn á töflunum. Í niðurstöðu Landsréttar kemur fram að ætla megi að málið verði sent til héraðssaksóknara til meðferðar innan skamms og því hraðað.
Konan mun sæta farbanni þar til dómur gengur í máli hennar, en þó eigi lengur en til til 26. júlí næstomandi sem fyrr segir.