Bjarki Már Sigvaldason lést á fimmtudag eftir langa og erfiða baráttu við krabbamein. Hann lætur eftir sig eiginkonu, Ástrós Rut Sigurðardóttur og tíu mánaða gamla dóttur.
Bjarki var 32 ára gamall. Fyrir rúmlega sex árum, var hann 25 ára gamall og spilaði knattspyrnu með meistaraflokk HK. Þá greindist hann með krabbamein var sagt að hann ætti aðeins um tvö ár eftir ólifað. Síðan hafa liðið rúmlega sex ár þar sem Bjarki giftist stóru ástinni sinni og eignast dóttur.
Ástrós, eiginkona hans, tilkynnti andlátið á Facebook í dag í hjartnæmri færslu sem DV fékk leyfi til að birta:
„Elsku ástin mín eina, eiginmaður, barnsfaðir, klettur og minn allra besti vinur kvaddi okkur fimmtudaginn 27. júní. Ég einfaldlega kem því ekki í orð hvað sorgin er mikil.
Þú varst mér allt og ég hef bara ekki hugmynd um hvernig ég á að fara að án þín. Hvernig í ósköpunum lifi ég þetta hjartasár af? Söknuðurinn er svo mikill og áþreifanlegur að þetta er mér um megn.Þú áttir svo mikið í mér elsku besti minn, studdir mig í einu og öllu og róaðir mig niður og hafðir vit fyrir mér. Það sem við gátum kjaftað saman um lífið og tilveruna alla daga og notið stundanna, ég þú og Emma Rut.
Takk fyrir að hafa komið inn í líf mitt þegar ég var 16 ára gömul, ég varð ástfangin við fyrstu sýn og er það enn í dag. Takk fyrir að ferðast með mér um heiminn, giftast mér og eignast besta barn í heimi með mér sem mun bera öll góðu genin þín um ókomna tíð.
Ég ætla að standa mig í stykkinu fyrir þig, ég mun ala upp Emmu eftir okkar lífsgildum alveg eins og við töluðum um og mun ávallt passa uppá að hún eigi fullt af fallegum minningum um þig.
Þú ert besti maður sem ég hef kynnst, svo klár, góðhjartaður og með fallega og skýra hugsun. Þessi dásamlegu fótboltalæri munu ávallt lifa með mér, þú varst einfaldlega toppurinn á tilverunni í mínu lífi! Að sjá þig dúllast með Emmu var einstök gjöf, þú ert svo yndislegur pabbi. Ég elska þig meira en allt ástin mín, að eilífu“
Bjarki tók veikindunum af miklu æðruleysi og deildi eftirfarandi lífspeki á Facebook í færslu sem hann birti í nóvember:
„Það skiptir ekki máli hversu lengi þú lifir, heldur skiptir það máli hvernig þú lifir þínu lífi. Lífið er núna, lifðu því!“
Við sendum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum.