Helgi Seljan fjölmiðlamaður segir að stefna Jón Baldvins gegn Aldísi dóttur sinni, RÚV og Sigmari Guðmundssyni, meðal annars bera vitni um hugleysi. Helgi Seljan og Sigmar ræddu báðir við Aldísi í morgunútvarpinu á Rás 2 þar sem Aldís sakaði föður sinn um kynferðisofbeldi og fyrir að hafa með spillingarkenndum hætti látið svipta sig sjálfræði. Athygli vekur að Jón Baldvin stefnir ekki Helga Seljan.
Helgi skrifar:
Fyrir utan hversu arfavitlaus þessi stefna er, skulu menn hafa í huga gegn hverjum hún beinist ekki. Nefnilega ekki neinni af öllum þeim konum sem stigu fram í Stundinni og þessum sama útvarpsþætti og lýstu – ekki síður – ógeðfelldu ofbeldi sem þær sættu af hendi þessi manns.
Fyrir vikið er þessi stefna, glórulaus sem hún er, fyrst og fremst einhver tilraun til pólitískrar leiksýningar þess sem stefnir. Og hefur ekkert með réttlætis- eða sannleiksást að gera. Ekki neitt. Heldur er þetta bara enn ein uppsetningin á þessu þrautleiðinlega skólaleikriti Skeggjabekksins; sem við erum einhverra hluta vegna alltaf og enn neydd til að sitja undir.
En þetta sýnir ef til vill í leiðinni hugleysi sama gæja. Hann stefnir dótturinni, sem hann hefur úthrópað fárveika á geðsmunum og þar með ómarktæka, þvert á álit sérfræðinga.
En hann stefnir ekki hinum. Hann þorir því ekki, vitandi sem er að þá fá þær allar loksins áheyrn yfirvalda.
Helgi Seljan segist fullviss um að endir málsins verði góður en pistil hans má lesa með því að smella á FB-færsluna hér undir: