Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, hefur stefnt dóttur sinni, Aldísi Schram, fjölmiðlamanninum Sigmari Guðmundssyni og RÚV, fyrir meiðyrði. Tilefnið er viðtal við Aldísi í Morgunútvarpinu á Rás 2 í janúar síðastliðnum.
Frá þessu greinir Stundin.
Þar kemur fram að Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður gæti hagsmuna Jóns Baldvins í málinu. Aldísi er stefnt fyrir á annan tug ummæla en Sigmari er stefnt vegna fjögurra ummæla. Hver þessi ummæli eru nákvæmlega er ekki tilgreint.
Mál Jóns Baldvins var í deiglunni í byrjun árs en sjö konur stigu fram og sökuðu hann um kynferðislega áreitni. Þá sakaði Aldís hann um að hafa misnotað aðstöðu sína þegar hann var sendiherra í Bandaríkjunum og sent beiðnir um nauðungarvistun með bréfsefni frá sendiráðinu.