„Ég byrjaði að kenna við skólann árið 2009 en árið 2012 og 2013 komu tveir nýir yngri kennarar til starfa við deildina. Fljótlega tók að bera á andúð og ríg í minn garð frá þeim. Ástandið fór versnandi, ef til vill vegna þess að því miður lét ég þetta yfir mig ganga of lengi. Þáverandi fagstjóra var kunnugt um ástandið en kaus að gera ekkert í því. Það kom fram í samtali mínu við hann vorið 2017.“
Að sögn Sigríðar Helgu fólst eineltið meðal annars í rógburði og slúðri, röngum ásökunum um frammistöðu í starfi, vinnuframlag hennar var talað niður, og óréttmæt gagnrýni var viðhöfð í viðurvist annarra. Enn fremur fólst eineltið í hunsun og útilokun frá ferðum deildarinnar, sumum samkvæmum og ýmsu öðru sem kennararnir gerðu sameiginlega. Segir Sigríður Helga að nokkrir kennarar hafi myndað klíku sem var henni mjög andsnúin.
„Mín mistök voru þau að fara ekki með þetta til fyrrverandi rektors. Ég þraukaði áfram og vonaði alltaf að ástandið myndi lagast. Svo er það þessi þolendaskömm, maður skammast sín og reynir að láta eins og ekkert sé, vill ekki viðurkenna þetta. Já, ég reyndi of lengi að umbera ástandið.
Vorið 2017 var mér hins vegar nóg boðið þegar ég frétti að einn af yngri kennurunum væri orðinn fagstjóri. Þar fannst mér framhjá mér gengið. Það hafði aldrei verið rætt um það í mín eyru að fyrrverandi fagstjóri hygðist hætta sem fagstjóri þannig að það hvarflaði ekki að mér að sækja um.“ Sigríður Helga segir dæmigert fyrir ástandið og viðmótið gagnvart henni að hún skyldi ekki hafa fengið að vita um þetta.
Í kjölfarið ræddi hún við þáverandi rektor skólans, Yngva Pétursson – sem hún ber vel söguna – og skýrði honum frá eineltinu auk þess sem hún óskaði eftir ársleyfi frá störfum. Þann tíma notaði hún til að kenna við Fjölbrautaskólann við Ármúla. Þar var hún við störf í einn vetur og kunni afar vel við sig.
Þessi frétt er brot úr lengri grein um ólgu í Menntaskólanum í Reykjavík sem birtist í prentútgáfu DV í dag.