Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, gefur ekki mikið fyrir pistil Hallgríms Helgasonar rithöfundar um framgöngu hennar í Kastljósi í gærkvöld og meint einelti hennar gegn Helgu Björg Ragnarsdóttur, skrifstofustjóra hjá borginni. Vigdís segir að sannleikurinn víki fyrir lygi og dylgjum í skrifum Hallgríms og segist hún vorkenna honum fyrir þessi skrif.
Eins og kom fram í frétt fyrr í dag DV um málið áfellist Hallgrímur Vigdísi fyrir að hafa birt meint trúnaðargögn um málið á Facebook-síðu sinni en Vigdís hefur bent á að gögnin hafi ekki lengur verið trúnaðargögn eftir að þau voru opinberuð henni. Hallgrímur segir að einelti Vigdísar gegn starfsmanninum hafi meðal annars verið fólgið í miklum fjölda neikvæðra athugasemda á Facebook um Helgu Björg og störf hennar, auk þess að hún hafi vegið að henni í viðtölum.
Pistil Hallgríms má lesa í fyrri fréttinni.
Er DV bar skrif hans undir Vigdísi svaraði hún svo:
„Ég hef sagt allt sem segja þarf í þessu máli og fer ekki niður á sama plan og meirihlutinn og einarðir stuðningsmenn Dags B. Eggertssonar. Ég vorkenni Hallgrími fyrir þessi skrif þar sem sannleikurinn víkur fyrir lygi og dylgjum. Hann styður borgarstjóra í blindni sama hvað málstaðurinn er vondur. Allir vita að Dagur er rúinn trausti til þess að gegna embætti borgarsjóra. Eigi fólk eitthvað vantalað við mig í þessu ímyndaða eineltismáli þá er löglega leiðin að fara með málið fyrir dómstóla. Meira hef ég ekki um málið að segja nema það að ég er að athuga réttarstöðu mína í samráði við lögmann sem hefur lagt borgina fyrir dómi í sambærilegu máli – punktur.“