„Nú hefur ríkisstjórn Íslands valið verstu hugmynd af hundrað mögulegum sem varða öryrkja,“ segir Unnur Hrefna Jóhannsdóttir í pistli sem birtist í Morgunblaðinu þar sem hún gagnrýnir fyrirhugað starfsgetumat öryrkja harðlega. Telur hún starfsgetumatið vanhugsað, það hafi ekki reynst vel annars staðar í heiminum, og það sé til þess fallið að auka vanlíðan meðal öryrkja og kostnað fyrir íslenska ríkið.
„Í Bretlandi sviptu 90 öryrkjar sig lífi á mánuði fyrstu tvö árin eftir að hafa verið dæmdir vinnuhæfir í starfsgetumati sem innleitt var þar í landi árið 2010,“ skrifar Unnur. „Hversu marga sættum við Íslendingar okkur við að missa? Því það er fórnarkostnaður sem fylgir starfsgetumati, það sýnir reynsla annarra þjóða, svo við berum okkur saman við aðra, sem við höfum einmitt svo gaman af.“
Máli sínu til stuðnings rekur Unnur fjórar ástæður fyrir því að starfsgetumat sé virkilega vond hugmynd og engum til góða.
Í fyrsta lagi þá sé raunverulega ástæða að baki því að læknar og Tryggingastofnun úrskurði einstaklinga óvinnufæra á almennum markaði. „Með starfsgetumatinu, sem öryrkjar fá sjálfir ekkert ráðið, er verið að mála þá enn frekar út í horn.“
Lög um almannatryggingar kveði á um að tryggja beri framfærslu fatlaðra og langveikra. Þrátt fyrir það sé sé framfærslulífeyrinn langt í frá að duga fyrir eðlilegri framfærslu.„Það verður því höggvið enn frekar nærri öryrkjum verði starfsgetumatið tekið upp, fátækt þeirra og barna þeirra verður enn verri sem og sárafátækt.“
„Í öðru lagi þá erum við komin að því sem ráðamenn virðast ekki vilja vita,“ skrifar Unnur. Það sem ráðamenn vilji ekki vita er að eftirspurnin á hinum almenna vinnumarkaði eftir öryrkjum til vinnu, hvað þá vinnu aðeins að hluta, er lítil sem engin.
„Hinn almenni vinnumarkaður er því ekkert sérlega æstur í að ráða fatlað eða langveikt fólk í hlutastörf, enda engin velferðarstofnun. Það segir sig sjálft að á sá sem hefur aðeins 25% orku getur illa fótað sig í samkeppni við þá sem hafa 100% orku og jafnvel meira.“
Í þriðja lagi, bendir Unnur á, ef starfsgetumat hefur metið öryrkja hæfan til vinnu að fullu eða hluta, og hann fær ekki vinnu, því eftirspurnin er engin, þá á sá öryrki væntanlega rétt á atvinnuleysisbótum.
„Hver er þá ávinningurinn fyrir ríkið? Og það skondna er að atvinnuleysisbætur eru hærri en örorkubætur.“
„Í vinsælu dægurlagi er spurt: „Vill einhver elska 49 ára gamlan mann?“ Ég spyr: „Vill einhver ráða 75% öryrkja í vinnu?“
Í fjórða lagi sé það bláköld staðreynd að starfsgetumat komi illa út fyrir öryrkja og samfélagið allt. Það geri öryrkja enn meiri hornrekur í samfélaginu.
„Berum okkur ekki saman við aðra nema til að læra af þeirra mistökum. Og svei þeirri lífsseigu mýtu að öryrkjar séu fólk sem nenni ekki að vinna, því það er alls ekki svo.“
Unnur skorar því á ráðamenn að hætta við starfsgetumatið og afnema frekar krónu á móti krónu skerðingu. Þar með skapist hvati fyrir öryrkja til að leita á vinnumarkaðinn, hvati sem ekki er til í núverandi ástandi.
„Íslenskir öryrkjar vilja bara vera með í málum og hafa þar vægi. Íslenskir öryrkjar vilja ekki vera tilraunadýr. Starfsgetumat er heimskra manna ráð.“