„Elías er að mínu mati maður ársins. Hann bregst við til varnar náttúrunni sem nýtur aldrei vafans þegar frek peningaöflin eru annars vegar,“ segir Katrín Oddsdóttir, lögmaður og formaður Stjórnarskrárfélagsins í færslu á Facebook.
Katrín vísar þar til aðgerðar Elíasar S. Kristinssonar, landeiganda að Seljanesi á ströndum, sem stöðvaði framkvæmdir VesturVerks á Ófeigsfjarðarvegi í gær með því að stilla sér upp fyrir framan beltagröfu. VesturVerk hafði freistað þess að hefja framkvæmdir þrátt fyrir kæru sem landeigendur Drangavíkur hafa lagt fram.
„Mér finnst þetta alveg ótrúleg ósvífni, að daginn eftir að það kemst upp að þeir eigi ekki stóran hluta af vatnssvæðinu sem þeir þurfa að þá hefji þeir framkvæmdir. Allir eðlilegir menn hefðu ákveðið að bíða eftir að fá úr þessum málum skorið. Þetta sýnir bara hvað þetta er ósvífið lið,“ sagði Elías í samtali við Fréttablaðið. „Ætlun þeirra er að eyðileggja eins mikið og hægt er í sumar svo að það verði ekki hægt að hætta við virkjunina. Þessir menn hugsa bara um peninga og hlutabréfin sín og svífast bara einskis.“
Katrín Oddsdóttir las af aðgerðum Elíasar og telur, líkt og áður segir, að hann eigi skilið útnefningu sem maður ársins fyrir vikið.
„Það er löng og ógeðfelld hefð fyrir því á Íslandi að æða af stað með vélar þegar umhverfisspjöllum er mótmælt svo það verði ógerningur síðar að hætta við ef um ólögmæti er að ræða, skaðinn skeður,“ segir Katrín á Facebook. „Langafi minn vildi eitt sinn virkja Gullfoss. Sigríður Tómasdóttir í Brattaholti sagðist myndi henda sér í fossinn við fyrstu skóflustungu. Fossinn fékk frið. Ætli við þurfum að spyrja okkur að því í dag hvor hugmyndin hafi verið “verðmætari” vernd eða virkjun?“
Katrín segir að það sé ekki lengur rétt að ræða um fjárhagsleg verðmæti þegar viðkemur náttúrunni. „Hún á okkur, en ekki við hana og við verðum að vakna til vits um það hvernig við getum þjónustað dreifðar byggðir án þess að fórna henni.“
Hún bendir á að í nýju stjórnarskránni, sem ekki hefur enn verið samþykkt af Alþingi, innihaldi öflugt náttúruverndarákvæði. „Þar er til dæmis talað um rétt náttúrunnar sjálfrar.
Set þessa grein hér með ósk um það að við fáum nýja stjórnarskrá og að sem flestir taki sér Elías og Sigríði til fyrirmyndar.“
Greinin sem Katrín vísar til er 33. gr. í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár: