fbpx
Miðvikudagur 20.ágúst 2025
Fréttir

Einskis vert líf fanga eftir afplánun á Íslandi: „Við erum að framleiða öryrkja og aumingja“

Auður Ösp
Sunnudaginn 30. júní 2019 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við gætum verið að framleiða smiði, múrara, málara, bakara, þjóna og kokka en við erum í staðinn að framleiða bara öryrkja og aumingja,“ segir íslenskur karlmaður sem afplánað hefur dóm í fangelsi hér á landi.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum Höllu Maríu Halldórsdóttur, sem skrifaði lokaritgerð til MA- gráðu í náms- og starfsráðgjöf  um starfsþjálfun í afplánun sem betrun.

Halla María kannaði framboð starfstengdra úrræða í afplánun og reynslu fanga af þeim og ræddi meðal annars við fimm fyrrverandi fanga um upplifun þeirra á þeim hindrunum eða stuðningi sem biðu þeirra eftir afplánun.

Á meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar er að framboð starfstengdra úrræða í afplánun þykir ekki nægjanlegt og skortir töluvert upp á starfsþjálfun og verknám inni í fangelsunum. Þegar fyrrverandi fangar koma út í samfélagið horfast þeir gjarnan í augu við félagslega einangrun og fordóma; eiga erfitt með að fá leiguhúsnæði og vinnu og stór hluti endar á örorku.

Fjarnám reynist mörgum erfitt

Allir nema einn af fyrrverandi föngunum fimm fóru í nám meðan á afplánun stóð: einn lauk háskólanámi og er núna í meistaranámi. Hinir þrír tóku hluta af framhaldsskóla, einn fór í háskólanám en kláraði það ekki.  Flestir þeirra tala um að erfitt sé að vera í námi eftir langan tíma og þeir fái litla aðstoð og utanumhald. Þeim þykir ekki nógu mikið úrval í boði en það sem hefði hjálpað þeim mest hefði verið ráðgjöf náms- og starfsráðgjafa fangelsanna.  Einn úr hópnum segir fjarnámið erfitt fyrir marga:

„Flestir gefast upp á náminu, ef þú ert í fjarnámi eða sko ef þú ætlar að komast eitthvað áfram í námi þá þarftu að fara í fjarnám og í flestum fangelsum er rosa lokað Internetið, þú færð svo stuttan tíma á Internetinu og þegar þú loksins kemst á Internetið þá eru svo margar síður sem þú kemst ekki inn á þannig að þú nærð aldrei upplýsingaöflun. […] í fyrri afplánun lærði ég ekki neitt, fór í eitt og eitt fag í skólanum þarna. En ég var ekki með hugann í þessu að læra og það var bara kúl að fara í fangelsi á þessum tíma og þá lærði maður ekki neitt. Þá var maður bara í neyslu.“

Vinna af skornum skammti

Viðmælendur Höllu höfðu allir fyrir utan einn unnið eitthvað meðan á afplánun stóð. Allir eru þeir sammála um að lítið sé í boði inni í fangelsunum og að leggja þurfi meiri áherslu á starfsþjálfun. Þá eru þeir allir sammála um að það skipti miklu máli að hafa eitthvað fyrir stafni í afplánun, finna tilgang í einhverju og það skipti máli heilsufarslega séð að vera betur undirbúinn fyrir aðlögun að samfélaginu.

Einn úr hópnum segir vinnu vera af skornum skammti innan fangelsanna og mismunandi hverjir séu valdir til vinnu eða vilja vinna.

„Vandinn í fangelsunum er sá að það eru rosa fá störf í boði og þeir sem eru sterkari eða hvað á að segja, eru ekki eins veikir á svellinu, þeir eru líklegri til að koma sér í vinnu og hafa áhrif á það, þeir veljast örugglega frekar til vinnunnar af því þeir hafa líkamlegt atgervi, hugarfar og annað til þess að gera kröfur um það að fá vinnu.“

Fordómar í samfélaginu

En hvað tekur við eftir afplánun? Mennirnir fimm sem rætt var við nefna allir að almennt geti verið erfitt fyrir fanga að koma aftur út í samfélagið og það sé erfiðara fyrir fyrrverandi fanga að fá vinnu. Fordómar geta verið ein af hindrununum þegar kemur að því að aðlagast samfélaginu á ný. Fram kemur að lítið sé um úrræði eftir afplánun, en eina úrræðið sem snýr heildstætt að föngum er verkefni Rauða krossins.  Eftir að afplánun lýkur þurfa fangar töluverða aðstoð til að koma sér á réttan kjöl í samfélaginu.

Einn mannanna nefnir meðal annars að oft sé ekki hægt að veita fyrrverandi föngum viðeigandi úrræði af því þeir falla á milli í kerfinu. Nefna má sem dæmi að þeir komast ekki í raunfærnimat af því fæstir borga í lífeyrissjóð meðan á afplánun stendur. Margir hafa unnið svarta vinnu áður en afplánun hefst, réttindi eru því ekki mikil hjá þessum hópi þegar líður að lokum afplánunar.

En það er ekki bara í tengslum við lífeyrissjóði og réttindi sem hópurinn fellur á milli kerfa, það getur líka verið tengt námi, eins og einn úr hópnum nefnir:

„Ég hefði alveg viljað halda áfram í háskólanámi en málið er það að fangar geta ekki stundað nám eftir fangelsi, það er vegna þess að nafnið þeirra er ekki í lagi, fá ekki námslán og fá ekki fjárstuðning hjá sveitarfélaginu vegna þess að þeir eru í námslánshæfu námi, skilurðu? Þannig að þeir eru þarna mitt á milli og geta ekki gert neitt, þeir þurfa að borga leigu og allt þetta þannig að þeir geta þetta ekki og fara bara að vinna.“

Öryrkjar til lífstíðar

Einn úr hópnum segist vita um fjölmörg dæmi þess að fangar eigi erfitt með að finna atvinnu eftir að þeir hafa lokið afplánun í fangelsi:

„Þeir geta verið í mörg ár að reyna að fá vinnu og enda mjög fljótt á örorku og verða bara öryrkjar til lífstíðar og ná sér aldrei,“ segir hann og bætir við á öðrum stað: „Þeir eru í endalausum áföllum og flestir fangar fara bara á félagslega þjónustu eftir afplánun.“

Annar úr hópnum lýsir því hvernig fyrrverandi fangar eiga gjarnan erfitt með að feta sig áfram á leigumarkaðnum.

„Við vitum svo sem að það er húsnæðisvandi almennt í samfélaginu, mjög erfitt að fá húsnæði og ef þú ættir að velja á milli þá tekurðu kannski frekar þann sem hefur ekki setið inni, skilurðu, það er bara þannig því miður.“

Flestir mannanna kvarta yfir ákveðnu öryggisleysi og litlum upplýsingum varðandi það hvað gæti mögulega tekið við eftir afplánun.

„Maður fær bara engar upplýsingar, maður sest ekkert niður með einhverjum þar sem er farið yfir ferilinn manns og hvað tekur við, það er bara tekið í hnakkann á þér og skófar í rassgatið og haltu bara áfram.“

Þá kemur fram að margir fangar glíma við félagsfælni og félagslega einangrun þegar út er komið. Það getur reynst yfirþyrmandi að koma úr fangelsi og gera tilraun til að aðlagast samfélaginu á ný.

„Vandamálið er líka það sem gerist þegar þú ferð í fangelsi, þú þarft í rauninni bara að vera í nokkra mánuði til að þetta gerist og hvað þá þeir sem eru búnir að vera í tíu ár. Þeir verða félagslega bældir og ég fer ekki í Kringluna eða bíó nema ég sé bara neyddur til þess. Margir hverjir fara bara úr fangaklefanum og leigja eitthvað herbergi og eru bara þar, skilurðu. Fara voða lítið út nema bara á kvöldin og eitthvað svona, þannig að menn verða svona félagslega bældir og það er bara, getur tekið mörg ár að vinna sig úr því,“ segir einn fyrrverandi fangi og bætir við:

„Þetta er líka hluti af þessari örorku sem menn fara á, eiga erfitt með að fá vinnu, geta bara ekki, eiga erfitt með að vinna með fólki. Þeim finnst allir vera að horfa á sig, tala um sig eða verða fyrir einelti eða eitthvað, skilurðu. Þannig að það er ekki auðvelt að fara út. Þannig að þetta hamlar þeim að gera hvað sem er í raun og veru, sækja um hvað sem, meira að segja að sækja um örorku, það eru margir sem ná aldrei að sækja um örorku eða bara leitast eftir aðstoð.

Lítið traust til Fangelsismálastofnunar

Viðmælendur rannsóknarinnar eru sammála um að samfellan í kerfinu sé ekki nægjanleg, það vanti meira samstarf og þverfaglega nálgun. Þá eru þeir sammála um það að sveitarfélögin þyrftu að koma meira inn í fangelsismálin og þá sérstaklega ferlið eftir afplánun. Þá þykir töluvert vanta upp á upplýsingaflæði almennt til fanga um þeirra mál innan kerfisins. Kerfið virkar flókið og fyrir fanga virðist Fangelsismálastofnun vera hindrun og lítið traust er borið til hennar.

Halla María segist vona að stjórnvöld og sveitarfélög taki við sér og komi til móts við þá þörf sem er á sérhæfðri aðstoð eftir afplánun. Margt gott sé unnið í fangelsismálum á Íslandi og ekki megi gleyma að líta á það jákvæða og góða starf sem þar er unnið en mikilvægt sé að efla ýmislegt í starfseminni til að auka líkur á betrun fanga.

„Hins vegar liggur ábyrgðin ekki síður hjá þeim sem taka við þessum einstaklingum úti í samfélaginu og það þarf að líta á ferli fanga í afplánun og að henni lokinni sem eina heild.

Þegar litið er til framtíðar virðist vera sem samfélagið sé að taka við sér í þessum málefnum og átta sig á hversu þjóðfélagslega hagkvæmt og mikilvægt það er að aðlaga fanga farsællega að samfélaginu.“

„Hvorki fugl né fiskur“

„Ég tel að mikilvægt sé að greina þarfir skjólstæðingahóps Fangelsismálastofnunar, skipuleggja námsframboð í fangelsum landsins í samræmi við það, kostnaðarmeta og koma í framkvæmd.  Ég veit að til stendur að skoða þessi málefni en mér er ekki kunnugt um hvenær búast má við niðurstöðu,“ segir Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, í samtali við DV.

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, tekur heilshugar undir gagnrýni fyrrverandi fanga varðandi náms- og starfsframboð í íslenskum fangelsum.

„Nám í fangelsum landsins er hvorki fugl né fiskur og dregið hefur verulega úr því að fangar geti stundað nám, sem er gífurlega alvarleg mistök Ekkert verknám er í boði og bóklegt nám er af skornum skammti þar sem einstaklingarnir komast aldrei áfram í námi.

Aðeins fjórar grunngreinar eru kenndar og þá er ég bara að tala um fangelsin á Suðurlandi en engin kennsla er í öðrum fangelsum. Fangar geta í sumum tilfellum stundað fjarnám en í flestum tilfellum eru svo miklar hindranir hjá fangelsunum að það er orðið mjög erfitt sð stunda það nám. Að mati Afstöðu hefur FSU gjörsamlega brugðist með nám fanga á landsvísu og að mínu mati ekki lagt í verkefnið það fjármagn sem FSU fær árlega eyrnamerkt námi fanga.

Guðmundur Ingi.

Guðmundur Ingi telur afar mikilvægt að efla starf náms- og starfsráðgjafa í öllum fangelsum landsins. „Þeir ráðgjafar sem hafa starfað á Suðurlandi hafa lyft grettistaki þó en það er þó ekki nóg.“

Guðmundur segir engin úrræði í boði eftir afplánun og í langflestum tilfellum verði þeir einstaklingar sem hafa stundað eitthvert nám í afplánuninni að hætta því.

„Fólk sem fer á Vernd eða aftur út í samfélagið hefur brunnið flestar brýr að baki sér og fá ekki námslán eða önnur lán. Um leið og þau eru í námslánshæfu námi fá þau heldur ekki félagslegar bætur, það er því endastöð á nám hjá flestum. Allir eru þó sammála að aukin menntun dregur úr glæpum, ítrekun brota og fækkar brotaþolendum. Það væri því best fyrir samfélagið að gera sem mest í því að útskrifa fanga úr skólum á meðan þeir eru í afplánun og strax á eftir. Varðandi hin atriðin þá er sáralítið í boði og enginn staður sem aðstandendur fanga geta leitað til,“ segir Guðmundur og bætir við að Afstaða vinni þó að breytingum á því á næstunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Guðrún segir að slagkrafturinn í sleggju Kristrúnar sé enginn

Guðrún segir að slagkrafturinn í sleggju Kristrúnar sé enginn
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Stýrivextir haldast óbreyttir – Allir nefndarmenn studdu ákvörðunina

Stýrivextir haldast óbreyttir – Allir nefndarmenn studdu ákvörðunina
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Íris giftist plastpokakarli og sat í súpunni við skilnaðinn – „Ég heyri bara kommentin „Þú hefðir bara átt að velja þér betri mann““

Íris giftist plastpokakarli og sat í súpunni við skilnaðinn – „Ég heyri bara kommentin „Þú hefðir bara átt að velja þér betri mann““
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Tíðindin í Tekjublaðinu: Sigríður hæstlaunaðasti lobbýistinn og óvæntur bankastarfsmaður sló bankastjórum við

Tíðindin í Tekjublaðinu: Sigríður hæstlaunaðasti lobbýistinn og óvæntur bankastarfsmaður sló bankastjórum við
Fréttir
Í gær

Heiðrún segir fólki að anda rólega: „Merkilegt að sjá hve mörgu hefur verið haldið fram í fjölmiðlum sem stenst ekki skoðun“

Heiðrún segir fólki að anda rólega: „Merkilegt að sjá hve mörgu hefur verið haldið fram í fjölmiðlum sem stenst ekki skoðun“
Fréttir
Í gær

Ásgerður sendir neyðarkall: „Það rignir yfir mig tölvupóstum“

Ásgerður sendir neyðarkall: „Það rignir yfir mig tölvupóstum“