Viðbrögð þeirra við svívirðingum á netinu – Sumir búa við daglega hatursorðræðu – Skítkastið særir aðstandendur
„Þið getið verið breytingin sem þið viljið sjá. Ef þið hættið þessu endalausa væli í kommentakerfunum, þá er aldrei að vita nema þið sjáið að þó að fólk tjái sig um hluti í fjölmiðlum sem skipta ykkur ekki máli persónulega, þá er algjör óþarfi að ráðast á viðkomandi. Jafnvel þó að einhver tjái skoðun sem ykkur finnst alveg út í hött, þá er hægt að draga andann djúpt, skrifa athugasemdina sem átti að fara í kommentakerfið frekar á miða og troða miðanum djúpt upp í rassgatið á sér.“
Þannig komst Atli Fannar Bjarkason, ritstjóri Nútímans, að orði þegar hann fór yfir fréttir vikunnar í Vikunni með Gísla Marteini á RÚV. Innslag Atla Fannars hefur vakið athygli og var innblásið af umfjöllun Vísis og Nútímans af hrakförum Sólmundar Sólmundarsonar, eða Sóla Hólm eins og hann er gjarnan kallaður. Sóli, sem er starfsmaður RÚV, sat fastur í nokkrar klukkustundir í flugvél Wizz air á Keflavíkurflugvelli fyrir skömmu og sagði að um væri að ræða eina af sínum verstu martröðum. Lesendur Vísis höfðu enga samúð með Sóla og kommentakerfið logaði undir fréttinni. Í umfjöllun Atla Fannars á RÚV sagði að sú hegðun virkra í athugasemdum, að rakka niður viðmælendur hefði gert að verkum að fólk forðist nú jafnvel að fara í viðtöl af ótta við að vera tekið fyrir. Atli Fannar sagði:
„Virkir í athugasemdum eru ekki aðeins að skemma eigið mannorð, þeir eru að skemma internetið.“
Um innslag Atla urðu svo til aðrar fréttir þegar blaðamennirnir Atli Fanndal og Jóhann Páll Jóhannsson gagnrýndu Atla Fannar. Jóhann Páll sagði á Facebook:
„Ef óbreyttir borgarar – kannski fólk sem á erfitt og líður ekki vel – dirfast að halla orði á starfsmenn RÚV á kommentakerfum fréttamiðla, mega þeir þá eiga von á því að vera varpað upp á skjáinn í sjónvarpi allra landsmanna á præmtæm, nafngreindir, sakaðir um „væl“ og sagt að troða hlutum upp í rassgatið á sér?“
DV ákvað því að slá tvær flugur í einu höggi. Heyra í þeim sem komu við sögu hjá Atla Fannari sem og ræða við þekkta einstaklinga sem hafa fengið það óþvegið í kommentakerfum fjölmiðla í umdeildum fréttum og kanna hvaða áhrif það hefur haft á þau og þeirra nánustu. Þar kom í ljós að flestir viðmælendur DV sögðu meiðandi innlegg særandi og hefðu ættingjar, þá makar og börn, tekið nærri sér að lesa ljót ummæli í kommentakerfum fjölmiðla.
Atli Fannar Bjarkason: Þetta er hluti af lengri umfjöllun:
Hvað er það versta sem hefur verið sagt um þig?
„Ég hef ekki fengið yfir mig gusur sem eru svo rosalegar að ég muni eftir þeim. Annars skiptir engu máli hvernig fólk talar um mig — það er leiðinlegra þegar fólk sem hefur frá einhverju skemmtilegu að segja nennir því ekki vegna þess að það óttast viðbrögðin.“
Hefur þú sagt eitthvað á netinu um aðra sem þú hefur séð eftir?
„Nei.“
Ættu fjölmiðlar að loka fyrir kommentakerfi?
,,Nei ekkert endilega. En þeir mega vera miskunnarlausir í að ritstýra þeim. Athugasemd er lesendabréf nútímans og fjölmiðlar ákveða hvað þeir birta.“
Atli Fannar Bjarkason nafngreindi þrjár manneskjur í innslagi í þættinum Vikunni með Gísla Marteini. DV náði tali af tveimur þeirra, Guðbjörgu Maríu Jóelsdóttur og Þorkeli Markússyni. Kolfinna Þorfinnsdóttir svaraði ekki síma.
„Ég er orðin heimsfræg,“ segir Guðbjörg María Jóelsdóttir og kveðst ekki hafa gengið of langt þegar hún tjáði sig um Sóla Hólm. „Hann getur þakkað fyrir að vélin lenti. Það var brjálað veður og hann að kvarta undan því að þurfa að hanga í vélinni þegar hann var hólpinn, ég var aðallega að gera grín að þessu og það voru fleiri en ég sem gerðu það. Að kvarta undan þessu, ég get ekki orða bundist. Mér finnst líka óþarfi að tjá sig svona en hann er kannski þekktur þessi maður og því leyfilegt að segja allt mögulegt. Ég var eiginlega að gera gys að honum. Þetta var flipp hjá mér. Mér fannst asnalegt hjá honum að tjá sig svona, ég hef lent í svipuðu en ég er ekkert að kvarta. Ef ég á að taka þetta aftur get ég alveg eins gert það og látið eins og ég hafi ekkert verið að segja þetta, ef ég hef verið að særa hann. Mér finnst ekki gaman ef maðurinn er sárþjáður yfir þessu.“
Ertu sátt við að enda hjá Gísla Marteini?
„Ég sá þetta ekki strax sjálf. Ég er búin að sjá þetta núna og það hefur verið hringt í mig út af þessu. Ég passa mig héðan í frá að vera ekki skrifa eitthvað ef þetta verða afleiðingarnar.“
„Þetta var djúpt innlegg hjá mér og ég er sáttur, sérstaklega þar sem ég fæ athygli út á þetta,“ segir Þorkell Markússon sem staddur er í Madeira í Portúgal. „Ég er upp með mér.“
Sérðu eftir að hafa skrifað þetta?
„Nei, það geri ég ekki. Ég hefði ekki skrifað þetta nema ég hefði meint það. Ég sé ekkert eftir þessu. Hann (Sólmundur) hafði unnið fyrir þessu. Annars hef ég ekkert fylgst með þessu. Ég er bara í sólinni hér á Madeira.“