Pálmi Gestsson leikari hefur beðist afsökunar á orðum sem hann lét falla um Miðflokkinn og kjósendur flokksins í síðustu viku. Óhætt er að segja að ummæli hans hafi vakið talsverða athygli en hann sagði Miðflokksmenn vera „hálfvita“ og kjósendur þeirra „hálfu verri.“
„Þetta er þyngra en tárum taki en nauðsynlegt að segja það. Þeir eru stórhættulegir þjóðinni,“ sagði hann og notaði orð eins og „illa innrætt og heimskt fólk“ í færslu sinni á Facebook.
Pálmi var gagnrýndur nokkuð harðlega í kjölfarið og sagði til að mynda Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður Morgunblaðsins og áður formaður VR: „Þetta lyftir nú aldeilis umræðunni á hærra plan. Þessi orð ættir þú nú helst að draga til baka. Annars ertu eiginlega bara Guðjón bak við tjöldin.“
Á endanum fór Pálmi að ráðum Stefáns Einars og skrifaði afsökunarbeiðni á Facebook-síðu sína í gær. „Ég vil biðja kjósendur Miðflokksins afsökunnar á orðum sem ég lét falla um þá hér á þessum vettvangi nýlega. Þau voru ómakleg og yfir strikið,“ sagði hann.
Í umræðum undir sagði hann að honum hefði orðið á að alhæfa um alla kjósendur Miðflokksins. Það eigi maður ekki að gera. „Var undir vægum áhrifum af innhringjendum útvarps Sögu en mér heyrist meirihluti þeirra vera stuðningsmenn flokksins og kjósendur. Þetta var ósmekklegt af mér.“