Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri fékk stuðningsyfirlýsingu frá deildarstjórum allra deilda Þjóðleikhússins í byrjun mánaðarins. Yfirlýsingin barst þjóðleikhúsráði og mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Skipunartími Ara rennur út um næstu áramót en Ari segir að yfirlýsingin sé hvatning fyrir hann að sækjast eftir starfinu lengur.
Fjallað er um þetta í Morgunblaðinu í dag.
Nokkuð hefur gustað um Ara að undanförnu vegna meintrar óánægju leikara vegna hegðunar og framkomu Ara. Fjallað var um málið í Fréttablaðinu í síðustu viku og þar kom fram að stjórn Félags íslenskra leikara hygðist senda bréf til Þjóðleikhúsráðs og Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, vegna málsins.
Þá sagði Birna Hafstein, formaður Félags íslenskra leikara (FÍL), að leikarar hafi komið til hennar grátandi eftir samskipti við Ara. Í samtali við RÚV í síðustu viku sagði Birna:
„Þetta hefur með ósæmilega hegðun að gera í garð listamanna. Þeir hafa margir hverjir kvartað hér undan mjög svo erfiðum samskiptum við sinn yfirmann […] En jú, þau kvarta undan mjög erfiðum samskiptum til margra ára, þannig að fólk hefur verið skekið og komið hingað yfir jafnvel grátandi.“
Í frétt Morgunblaðsins í dag kemur fram að yfirlýsingin hafi verið send í kjölfar umrædds bréfs sem barst frá lögmanni FÍL til þjóðleikhúsráðs og Lilju. Í yfirlýsingunni, sem Morgunblaðið vitnar til, segir:
„Það sem veldur okkar starfsfólki helst áhyggjum er að utan vinnustaðarins virðast vera raddir sem reyna að tala starfsemina og stjórnanda hennar niður og láta líta út fyrir að hér sé ekki allt með felldu. Þvert á móti upplifum við hér samheldni og liðsanda á björtum tímum.“
Þá er vitnað í könnun sem náði til starfsmanna þeirra stofnana sem eiga aðild að Samtökum atvinnurekenda í sviðslistum. Könnunin kom ágætlega út fyrir Þjóðleikhúsið þar sem 79% svarenda töldu að stjórnendur mættu kröfum og óskum starfsmanna vel en aðeins 3 prósent illa. Þá sögðust 84 prósent svarenda telja að stjórnendur tækju vel á krefjandi vandamálum sem kæmu upp.
Ari segir við Morgunblaðið að auðvitað sé það áhyggjuefni ef bara einum líður illa í vinnunni, en á stórum vinnustað eins og Þjóðleikhúsinu kveðst hann gleðjast yfir niðurstöðum könnunarinnar sem vitnað er til hér að fram.
„Því fylgja oft heilmikil vonbrigði ef fólk fær ekki það tækifæri sem það telur sig eiga að fá. Ég vissi það þegar ég tók við sem þjóðleikhússtjóri að það myndu ekki allir elska mig jafn mikið. En í störfum mínum hef ég alltaf gætt að því að fara vel með það vald sem mér er treyst fyrir og það hefur engin kvörtun borist til mín nokkurn tímann. Það er auðvitað óþægilegt þegar verið er að bera mann sökum en fær ekki að mæta þeim,“ segir Ari við Morgunblaðið.