fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Magnús þvertók fyrir að hafa verið handtekinn: „Ég bað lögregluna um far í vinnuna“

Magnús grunaður um að valda umferðarslysi – Meint brot geta varðað sex ára fangelsi

Einar Þór Sigurðsson
Mánudaginn 6. mars 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Magnús Ólafur Garðarsson, fyrrverandi forstjóri og stærsti hluthafi United Silicon á Íslandi, var handtekinn 20. desember síðastliðinn, grunaður um að hafa með vítaverðum akstri valdið umferðarslysi á tvöföldum kafla Reykjanesbrautarinnar. Samkvæmt heimildum DV telur lögreglan að Magnús hafi, með akstri sínum þennan morgun, raskað umferðaröryggi á alfaraleiðum eins og það er orðað í 168. grein almennra hegningarlaga. Brot sem hefur í för með sér almannahættu en viðurlögin við slíku broti geta varðað fangelsi í allt að sex árum.

DV hafði samband við Magnús sem þvertók fyrir það að hafa verið handtekinn. „Ég bað lögregluna um far í vinnuna,“ sagði Magnús þegar hann var spurður hvers vegna lögreglan hafi ekið honum af slysstað. Hann kann þó engar skýringar á því af hverju lögreglan vistaði hann í fangaklefa meðan á frumrannsókn málsins stóð.

Þá hefur DV einnig heimildir fyrir því að lögreglan muni krefjast þess að bifreiðin sem Magnús ók umræddan morgun, 20 milljóna króna Tesla-rafbifreið, verði gerð upptæk á grundvelli 107. greinar umferðarlaganna en þar segir meðal annars í lið a) að þegar um sérlega vítaverðan akstur er um að ræða má gera upptækt vélknúið ökutæki „… sem ökuskírteini þarf til að stjórna og er eign þess sem hefur framið brotið“ en Magnús er skráður eigandi bifreiðarinnar. Bifreiðin er enn í vörslu lögreglu.

Magnús vildi þó ekki viðurkenna það og sagði bifreiðina vera á verkstæði í Keflavík.
„Ég hef ekki lent í umferðarslysi síðan ég var nítján ára gamall og hef því ekki lent í árekstri í tuttugu og átta ár. Mér þykir það leiðinlegt að hafa ekið á þennan heiðarlega mann,“ segir Magnús og bendir á að umræddan dag hafi verið slæm færð og mikil snjókoma: „Ég var að skipta um akrein og rann til í slabbinu.“

Á 690-hestafla tryllitæki

Neyðarlínan fékk tilkynningu um umferðarslysið klukkan 8.50 en samkvæmt vitnum keyrði Magnús á ógnvænlegum hraða eftir Reykjanesbrautinni, frá N1 og þar til hann ók aftan á rauða Toyota Yaris-bifreið á tvöföldum kafla vegarins. Yaris-bifreiðin endaði 101 metra úti í Hvassahrauni. Magnús sat undir stýri á kraftmesta rafbíl sem hefur komið til landsins, Tesla Model S P85D, en rafbíllinn er 690 hestöfl og aðeins 3,4 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda. Magnús og bílstjóri hinnar bifreiðarnar voru báðir á leið til Reykjanesbæjar.

Mikil mildi var að ekki fór verr þegar rauða Toyota Yaris-bifreiðin endaði í Hvassahrauni en ökumaður bifreiðarinnar var alblóðugur í framan og var jafnvel talið að hann væri brotinn í andlitinu. Við skoðun á bráðamóttöku Landspítalans kom hins vegar í ljós að hann hafði sloppið með skurði en kenndi til í baki. Toyota Yaris-bifreiðin var gjörónýt eftir áreksturinn. Þá var Tesla-bifreið Magnúsar einnig illa farin og voru báðar bifreiðarnar fluttar af vettvangi með kranabíl.

Magnús sagði í samtali við DV að hann hafi sjálfur, persónulega, hringt í eiginkonu ökumanns rauðu Toyota Yaris-bifreiðarinnar og beðið hana afsökunar. DV hafði samband við ökumanninn sem segist aldrei hafa rætt við Magnús fyrir utan fáein orðaskipti á slysstað. Engin afsökunarbeiðni hafi borist, hvorki til hans né eiginkonunnar.

„Það er sérlega gaman að keyra bílinn í Sport og Insane-stillingunum enda feikilegt afl.“

Keyrði fram hjá eins og eldflaug

Magnús var hins vegar handtekinn á staðnum og færður til yfirheyrslu og sýnatöku. Samkvæmt heimildum DV höfðu að minnsta kosti þrír vegfarendur haft samband við lögregluna þennan morgun, 20. desember, og tilkynnt um svívirðilegt aksturslag bílstjóra Tesla-bifreiðarinnar. „Ég var svona rúmlega á löglegum hraða og hann tók fram úr mér eins og eldflaug,“ sagði eitt vitni sem Magnús ók fram hjá við álverið í Straumsvík þennan morgun.
Þannig hefur Magnús sjálfur lýst þeim óbeislaða krafti sem býr í Tesla-rafbíl sínum en í viðtali við Viðskiptablaðið sagði hann að bíllinn væri „… eins og eldflaug af stað, slíkur er krafturinn.“ Þá þykir Magnúsi sérlega gaman að keyra Tesluna í Sport og Insane-stillingunum „enda feikilegt afl.“

Fengu gögn frá Tesla Motors

Samkvæmt heimildum DV mun lögreglan á Suðurnesjum hafa fengið gögn úr tölvu rafbifreiðarinnar með aðstoð framleiðandans, Tesla Motors. Samkvæmt þeim gögnum var Magnús á 180 kílómetra hraða, eða tvöföldum hámarkshraða, aðeins nokkrum sekúndum áður en hann ók aftan á rauðu Toyota Yaris-bifreiðina þennan morgun. Magnús viðurkennir að hafa ekki ekið eftir aðstæðum, en þvertekur fyrir að hafa verið á tvöföldum hámarkshraða.

„Nei, það er ekki rétt. Alls ekki. Ég veit reyndar að í niðurstöðum lögreglunnar, því þeir rannsökuðu hvernig bíllinn bognaði og svona, þá voru þeir búnir að reikna út að ég var á 116 kílómetra hraða. Ég hef ekki neitað því. Það getur vel verið,“ sagði Magnús.

Þar sem brot Magnúsar eru talin alvarleg og eitt þeirra talið varða við 168. grein almennra hegningarlaga þá færðist málið frá ákærusviði lögreglustjórans á Suðurnesjum og til héraðssaksóknara. Samkvæmt heimildum DV eru rúmar þrjár vikur síðan héraðssaksóknari fékk málið á sitt borð en fyrir utan brot á umferðarlögum og almennum hegningarlögum sem upp hafa verið talin þá er Magnús einnig grunaður um að hafa valdið líkamstjóni af gáleysi. Búist er við því að málið verði dómtekið á næstu mánuðum.

Kaldhæðnislegt einkanúmer

Kísilmálmverksmiðja United Silicon í Helguvík hefur mikið verið í umræðunni undanfarnar vikur og mánuði. Íbúar í Reykjanesbæ hafa kvartað sáran undan mengun sem frá verksmiðjunni berst. Sú mengun hefur verið nokkuð viðvarandi frá gangsetningu verksmiðjunnar þann 22. nóvember síðastliðinn og hafa Umhverfisstofnun borist tugir ef ekki hundruð ábendinga frá íbúum.

Þá hafa einhverjir þeirra kvartað undan líkamlegum einkennum sem íbúarnir vilja meina að séu vegna mengunar frá Helguvík, mengunar frá United Silicon. Mengunin er í raun svo mikil að verksmiðjan er í gjörgæslu hjá Umhverfisstofnun sem hefur hótað að loka henni.

Á samfélagsmiðlum hafa nokkrir íbúar bent á þá kaldhæðnislegu staðreynd að einkanúmer Teslu Magnúsar sé NOCO2, sem þýðir ekkert koldíoxíð sem er ein helsta gróðurhúsalofttegundin. Magnús aki um með það einkanúmer á sama tíma og verksmiðjan spúir mengun í allar áttir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Heiðar tjáir sig um Kveiksmálið og segir engin annarleg sjónarmið búa að baki ákvörðuninni

Heiðar tjáir sig um Kveiksmálið og segir engin annarleg sjónarmið búa að baki ákvörðuninni
Fréttir
Í gær

Sverrir tjáir sig um handtökuna – „Hissa á þessu leikriti“

Sverrir tjáir sig um handtökuna – „Hissa á þessu leikriti“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt vitlaust út af brottrekstri Maríu Sigrúnar úr Kveik og kollegar grípa til varna – „Eru þau ömurlegu orð Ingólfi Bjarna til ævarandi minnkunar“

Allt vitlaust út af brottrekstri Maríu Sigrúnar úr Kveik og kollegar grípa til varna – „Eru þau ömurlegu orð Ingólfi Bjarna til ævarandi minnkunar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigríður Hrund dregur forsetaframboð sitt til baka

Sigríður Hrund dregur forsetaframboð sitt til baka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“