Eitt fremsta tónskáld þjóðarinnar, Atli Heimir Sveinsson, er látinn, áttræður að aldri. Frá þessu er greint á vef RÚV en RÚV barst tilkynning um málið frá fjölskyldu tónskáldsins.
Atli Heimir var einn af upphafsmönnum nútímatónlistar á Íslandi og var afar fjölhæft tónskáld. Hann samdi framúrstefnulega og krefjandi tónlist en líka aðgengilegri tónlist. Hann samdi mörg verk fyrir kóra og mikið af leikhústónlist við vinsælar uppfærslur. Í frétt RÚV segir:
„Árið 1976 hlaut Atli Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs fyrstur Íslendinga, fyrir flautukonsert sinn. Árið 1978 hlaut hann síðan L’ordre du merite culturel frá Póllandi og var var kjörinn meðlimur í Konunglegu sænsku tónlistarakademíuna árið 1993. Hann hélt fyrirlestra við ýmsa háskóla víða um heim og var gestakennari við CalArts í Los Angeles og Brownháskólann í Providence, Rhode Island. Atli Heimir var staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2004-2007.“
Eiginkona Atla Heimis var Sif Sigurðardóttir en hún lést árið 2018. Synir Atla Heimis eru Teitur sem fæddur er árið 1969 og Auðunn, fæddur 1971. Atli Heimir átti sjö barnabörn.
DV sendir fjölskyldu og vinum Atla Heimis innilegar samúðarkveðjur.