Fyrstu tuttugu dagarnir í aprílmánuði í Reykjavík voru þeir næsthlýjustu á þessari öld. Þetta segir Trausti Jónsson veðurfræðingur í færslu á bloggsíðu sinni. Á síðustu 145 árum hefur aðeins fjórum sinnum verið hlýrra í apríl.
„Hlýindin hafa haldið áfram. Meðalhiti fyrstu 20 daga aprílmánaðar í Reykjavík er +5,5 stig, +3,3 stigum ofan meðallags sömu daga áranna 1961-1990 og +1,9 ofan meðallags síðustu tíu ára. Dagarnir 20 þeir næsthlýjustu á öldinni, árið 2003 var meðalhiti þeirra +6,0 stig. Kaldastir voru þeir 2006, meðalhiti +0,9 stig. Á langa listanum (145 ár) er hitinn nú í 5. hlýjasta sæti, hlýjast var 1974, meðalhiti dagana 20 +6,1 stig. Kaldastir voru þeir 1876, -3,7 stig og -2,1 stig 1951.“
Það er víðar en í Reykjavík sem hiti er ofan meðallags. Á Akureyri er meðalhiti þessa fyrstu 20 daga 5,7 stig sem er 4,8 stigum ofan meðallags áránna 1961 til 1990 en 3,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
„Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum landsins, vikið er mest við Mývatn, +3,4 stig, en minnst er það við Laufbala, +0,7 stig, og +1,0 í Veiðivatnahrauni.“
Þá segir Trausti að úrkoma í Reykjavík hafi mælst 61,2 mm og er það vel umfram meðallag, en þó ekki nærri neinu meti. „Á Akureyri hefur úrkoman hins vegar mælst aðeins 4,0 mm – um fimmtungur meðalúrkomu – en ekki þó met heldur.“
Þá hafa sólskinsstundir mælst 87,1 í Reykjavík það sem af er mánuði og er það nærri meðallagi, að sögn Trausta. Ekki er útlit fyrir að þetta breytist mikið og segir Trausti að hita er spáð ofan meðallags síðasta þriðjung aprílmánaðar.