Fréttablaðið skýrir frá þessu. Haft er eftir Helga Helgasyni, framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, að það sé ekkert leyndarmál að fitan komi frá niðursuðuverksmiðjunni sem vinnur mikið með feita vöru.
„Þeir eru með rosalega feita vöru. Bæði að sjóða niður fisklifur og svo eru þeir með paté úr þorsklifur og það er ofboðslega mikil fita í fráveitunni frá svona fyrirtækjum.”
Sagði Helgi um Akraborg sem er einn stærsti framleiðandi á niðursoðinni þorsklifur í heiminum.
Haft er eftir Helga að fitugildra hafi verið til staðar en galli í fráveitunni hafi valdið því að úrgangur fór framhjá gildrunni. Hreinsibúnaður hafi verið settur upp hjá Akraborg í fyrra en samt fari of mikið magn út í fráveitukerfið. Unnið sé að úrbótum.
Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, sagði í samtali við Fréttablaðið að þvottavélar, sem þvo úrganginn áður enn hann er urðaður, stíflist ítrekað af völdum fitu.
„Það er ekkert sem bendir til þess að íbúar á Akranesi gangi öðruvísi um fráveituna en aðrir á okkar starfssvæði. Allt of mikið er af rusli í fráveitukerfinu og á meðan við sjáum það þarf að halda áfram að upplýsa fólk um hvað má og má ekki fara í fráveituna.”