Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Valþóri Ásgrímssyni, verkefnastjóra hjá Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, að á síðustu þremur árum hafi styrkur hinna haldlögðu efna aukist og sama þróun hafa átt sér stað á lengra tímabili. Á heimsvísu er þróunin sögð sú sama, mikið framboð og meiri styrkleiki.
Tollverðir hafa lagt hald á tugi kílóa af kókaíni í Leifsstöð á undanförnum árum en framboð og eftirspurn eftir því ber þess merki að góðæri hafi ríkt því kókaínnotkun tengist oft efnahagsaðstæðum enda dýrt fíkniefni.
Þeim mun sterkara sem kókaín er þeim mun meiri líkur eru á eitrunareinkennum. Fréttablaðið hefur eftir Jóni Magnúsi Kristjánssyni, yfirlækni bráðalækninga á Landspítalanum, að komum vegna fíkniefnaneyslu hafi fjölgað almennt. Hvað varðar komur fólks á bráðadeild vegna kókaínneyslu hafi þeim klárlega fjölgað frá því sem var fyrir fimm árum.