Ingu Sæland er mikið niðri fyrir vegna máls Ægis, sonar Ragnheiðar Sveinþórsdóttur, sem fær ekki greiðsluþátttöku í svonefndum forréttingum frá Sjúkratryggingum Íslands. Inga skorar á þingið að koma í veg fyrir þetta óréttlæti.
DV greindi í gær frá máli Ægis, sonar Ragnheiðar Sveinþórsdóttur, sem fættist með skarð í góm. Með svonefndum forréttingum hjá tannlækni er hægt að koma í veg fyrir að hann þurfi að undirgangast sársaukafulla aðgerð á kjálka seinna á lífsleiðinni, en Sjúkratryggingar Íslands hafa hafnað greiðsluþátttöku þó svo að fyrir liggi reglugerðarbreyting heilbrigðisráðherra á síðasta ári sem var gerð gagngert vegna þessa máls.
Ragnheiður sendi bréf á alla þingmann fyrir helgi þar sem hún gagnrýndi meðferð Sjúkratrygginga á málinu.
Inga Sæland hélt ræðu rétt í þessu á Alþingi þar sem hún sagðist orðlaus yfir þessi óréttlæti.
„Ég er eiginlega algjörlega orðlaus. Þar sem þessi unga móðir 9 ára gamals drengs í Vestmannaeyjum er að spyrja: Hvað er í gangi ? Hverslags eiginlega mismunun er þetta?“
Inga spyr hvort alþingi vilji í alvöru vera þekkt fyrir þetta, að neita 9 ára gömlu barni um bætt lífsgæði.
„Það eru fjögur slík börn á Íslandi í dag sem þurfa þessa meðferð og hvernig á maður að geta staðið hérna á hinu háa Alþingi, hluti af löggjafanum og sagt: Í alvöru? Það er ekki verið að koma til móts við foreldra, þau eru sjálf að greiða fyrir allt saman vegna þess að Sjúkratryggingar Íslands neita að borga. Þrátt fyrir það hefur hæstvirtur heilbrigðisráðherra með reglugerð í fyrra ætlað, að minnsta kosti virtist vera svo, að hennar góði vilji á þeim tíma hefði verið til þess einmitt að girða fyrir nákvæmlega þetta.“
Þegar Inga lauk máli sínu mátti heyra undirtök úr þingsal þegar þingmenn tóku undir með orðunum „Heyr, heyr,“ eftir að Inga beindi eftirfarandi áskorun til þingsins:
„Ég vil bara skora á ykkur öll að koma í veg fyrir svona lagað. Þetta er óréttlæti og þetta á ekki að líðast í neinu siðmenntuðu samfélagi.“
Sjá einnig: Ragnheiður búin að fá nóg – 9 ára syni hennar mismunað