„Þetta eru ekki mýs heldur rottuungar. Fullvaxnar rottur eru of stórar til að köttur myndi ráða við þær,“ segir kona í Vesturbænum, en hryllileg sjón mætti henni og manni hennar eru þau komu af kvikmyndasýningu í fyrrakvöld. Kötturinn hafði dregið inn enn eina rottuna. Heimiliskettir fólksins hafa dregið inn í hús margar rottur á undanförnum dögum.
„Það hefur verið ansi mikið um rottugang hér á Grenimelnum síðasta misserið og mér þótti nóg um þegar ein lítil kom á gluggann hjá mér að snudda eins og ekkert væri sjálfsagðara,“ segir konan en hjónin búa í kjallaraíbúð.
Myndirnar sýna þrjú dýr sem kettirnir hafa dregið inn í hús undanfarið. Sumir sem hafa séð myndirnar telja þetta vera mýs en konan er sannfærð að um rottuunga sé að ræða, eins og fyrr segir. Ástandið er skelfilegt og hún vonast til þess að orsökin finnist fljótlega en hún ætlar að hafa samband við meindýraeyði fljótlega:
„Ég hef verið að svipast um eftir holum eða öðrum stöðum þar sem þetta gæti verið að koma upp úr en ekkert fundið.“ Hún veitti DV leyfi fyrir birtingu myndanna í von um að eitthvað verði gert í málinu og grafist fyrir um orsakir þessa hömlulausa rottugangs.